Björn Bjarnason fyrrum ritstjóri, alþingismaður, ráðherra og borgarfulltrúi í Reykjavík er ómyrkur í máli vegna nýskeðra mengunar-og umhverfisslysa á vegum fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar.
Þar á Björn við það er hleypt var úr miðlunarlóni Andakílsárvirkjunar í Borgarfirði á dögunum með þeim afleiðingum að hrygningarstaðir lax í ánni urðu fyrir stórtjóni og seiðastofni árinnar svo til útrýmt, og síðan því að gríðarlegu magni af óhreinsuðu skólpi hefði um tíu daga skeið verið dælt í sjóinn við Faxaskjól í Reykjavík.
Að kvöldi miðvikudags 5. júlí birti sjónvarpið frétt um að 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi flæddu á hverri sekúndu út í hafið við Faxaskjól í Reykjavík og hefði gert í 10 sólahringa. Skolpdælustöðin þar væri biluð. Viðgerð hefði tafist og óvíst er hvenær henni lýkur. Afar bagalegt, sagði umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Svipuð orð hafði umhverfisstjórinn um ósköpin í Andakílsá.
Andakílsá og virkjunin þar. Hleypt var úr lóni við hana með þeim afleiðingum að árbotninn þaktist víða af sandi. Búsvæði laxins eyðilögðust.
Menn töluðu um umhverfisslys í Borgarfirðinum og kalla má þetta mengunarslys við strendur Reykjavíkur. Í Borgarfirðinum var þó ekki um slys að ræða heldur var tekin ákvörðun um að hleypa vatni úr lóninu án þess að hreinsa fyrst setið úr því. Ef til vill var ekki heldur neitt slys í skolphreinsistöðinni í Reykjavík heldur bilun sem brugðist var við með því að hleypa skolpi í sjóinn í von um að komast upp með það,
skrifar Björn og segir síðan:
Af fréttum má ráða að þeir sem vissu af ófögnuðinum hafi ákveðið að þegja um hann þar til sjónvarpið svipti þagnarhulunni af honum og birti fréttina. Það var ekki fyrr en þá sem tekið var til við að mæla saurgerlana í sjónum og vara við hættunni af menguninni.
Borgarstjórinn og meirihluti hans hefur talið sér mjög til ágætis að tekist hefur að ná fjárhagslegum tökum á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Lítur borgarstjórinn á þennan árangur sem rós í hnappagat sitt. Nú þegar hvað eftir annað kemur í ljós að alvarleg umhverfis- og mengunaratvik verða hjá fyrirtækinu lætur borgarstjóri ekki ná í sig. Hann vill ekki viðurkenna að engin rós er án þyrna.
Borgarstjórinn ber ábyrð á að varað sé við hættu vegna mengunar í borginni. Honum ber að sjá til þess að farið sé að lögum í því efni. Hann hefur brugðist þessari skyldu. Formaður borgarráðs kýs að tala af kaldhæðni um málið og segir varahluti vegna bilunar á skolpdælustöðvum ekki bíða í hillum. Þeim mun meiri ástæða var að beita ekki þöggun um mengunina.
Menn geta brosað í kampinn þegar borgarstjóri kveinkar sér og segist ekki hafa vitað að ætlunin hafi verið að láta kanadíska orrustuþotu taka þátt í flugdegi í Reykjavík eða að lögreglan teldi nauðsynlegt að efla viðbúnað á fjölmennum mannamótum í borginni. Ítrekað aðgæsluleysi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í umhverfis- og mengunarmálum og tilraunir til þöggunar í tengslum við það er hins vegar svo mikið alvörumál að borgarstjóri getur ekki skotið sér undan því.
Hvað um önnur mál af svipuðum toga sem varða OR: kísilútfellingar í Þingvallavatni, brennisteinsútfellingar í borginni frá Hveravallavirkjun? Eru öll spil lögð þar á borðið?
Björn Bjarnason skrifar að lokum í pistli sínum:
Þöggunartilburðir hafa tíðkast í rúma tvo áratugi innan OR um mál sem stjórnendum fyrirtækisins þykja óþægileg. Höfuðstöðvarnar reyndust mun dýrari en sagt var og svo illa gengið frá smíði þeirra að mörg hundruð milljónum þarf að verja til endurbóta svo að nýta megi húsið. Til að bjarga fjárhagnum var húsið selt fasteignafélagi og leigt síðan af því engu að síður má skilja fréttir svo að OR standi straum af kostnaði vegna endurbóta á húsinu. Hvernig skyldi sölunni á því hafa verið háttað?
Borgarfulltrúinn fyrrverandi gagnrýndi Dag B. Eggersson harðlega í Facebook-síðu sinni í gær og sagði frammistöðu borgarstjóra vegna skólpmengunarinnar jafngilda afsögn:
Mengunarslys af þessu tagi eru jafnan tekin föstum tökum af þeim sem stjórna borgum og bæjum. Hér átti borgarfyrirtæki…