Sigurbergur Sveinsson kaupmaður í Fjarðarkaupum segir það „endemis rugl“ að halda því fram að áfengi sé matvara, áfengi sé vímu- og fíkniefni og vill hann ekki að það verði selt í matvöruverslunum. Í pistli í Fréttablaðinu í dag vitnar Sigurbergur í niðurstöður nýrrar evrópskrar heilsufarsrannsóknar sem sýnir að Íslendingar drekka sjaldnar áfengi en ýmsar þjóðir sem við höfum borið okkur saman við en við drekkum meira í hvert sinn:
Sem sagt: Þegar við drekkum þá dettum við í það, eins og það er kallað. Og þetta gerum við þrátt fyrir að við þurfum að fara í sérstakar búðir, sem eru meira að segja lokaðar á sunnudögum, til þess að sækja eitrið,
segir Sigurbergur. Hann segir að það ætti að duga „íslensku afreksfólki í áfengisneyslu“:
En nei. Betur má ef duga skal og nú hafa nokkrir alþingismenn, fulltrúar okkar á elsta löggjafarþingi heims, ákveðið að eitra enn frekar fyrir þjóðinni og hafa áfengið aðgengilegt 24/7 allan sólarhringinn, allan ársins hring.
„Algjört frelsi getur aldrei orðið mannlegu samfélagi til góðs“
Sigurbergur tekur það fram að hann neyti sjálfur áfengis og telur hann sig hafa ágæta stjórn á því og því marktæka reynslu á viðskiptum við Vínbúðirnar. Að sama skapi hefur stór hluti þjóðarinnar ágæta stjórn á neyslu sinni. Er hann ánægður með þjónustu og úrval í Vínbúðunum og vill hann ekki breyta því fyrirkomulagi:
En nú verð ég að færa flutningsfólki eiturfrumvarpsins allmerkileg tíðindi: Áfengi er vímu- og fíkniefni, ólíkt matvöru. Þau rök að það sé matvara eru því endemis rugl.
En fyrst og fremst er ég á móti afnámi einkasölu vegna þess að ég vil ekki rýmka hömlur á sölu á vanabindandi vímu- og fíkniefnum alveg á sama hátt og við takmörkum hámarkshraða vélknúinna ökutækja til að vernda heilsu og líf fólks. Algjört frelsi getur aldrei orðið mannlegu samfélagi til góðs.
Voðinn vís fyrir innlenda framleiðslu
Bætir hann við að ef einkasala ÁTVR á áfengi verði afnumin geti skapast hætta á að stórar verslanakeðjur nái algjörum yfirráðum á þessum markaði. Að hans mati munu stærri keðjur velja þær tegundir sem viðskiptavinirnir fá þá að kaupa og stjórna verðlagi, það leiði til þess að úrval minnki og verð hækki:
Hið nýja fyrirkomulag myndi líka reynast smærri innlendum framleiðendum afar þungt í skauti. Þeir geta nú átt samskipti við einn aðila um sölu á vörum sínum innanlands en með afnámi einkasölu ÁTVR verða þeir undir þá sök seldir að þurfa að semja við hina og þessa smásöluaðila um að koma vöru sinni á framfæri og geta líka þurft að sætta sig við verðlagningu sem jafnvel dugir ekki fyrir framleiðslukostnaði. Að öðrum kosti skuli þeir hypja sig á brott með vöru sína úr viðkomandi verslun. Og það sem verra gæti verið; viðkomandi verslanakeðju. Og þá er voðinn vís fyrir ýmsa innlenda framleiðslu.