Aðkoma þýska bankans Hauck & Afhäuser að kaupum á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003 var til málamynda og tímabundið. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í Fréttablaðinu í dag en þar eru birtar upplýsingar úr bréfi rannsóknarnefndar Alþingis um kaupin.
Fram kemur að mat nefndarinnar sé að aðkoma bankans hafi verið í „reynd aðeins að nafni til“. Þýska bankanum hafi auk þess verið tryggt skaðleysi af þátttöku sinni í viðskiptunum. Fram kemur í bréfi nefndarinnar að upplýsingar hennar sýni að dagana áður en skrifað var undir kaupsamning Eglu hf. (Hauck & Afhäuser keypti hlutinn í gegn um félagið) og S-hópsins um kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum í janúar 2003, hafi hópur manna staðið að gerð tveggja samninga á milli þýska bankans og Eglu annars vegar og þýska bankans og aflandsfélags hins vegar. Aflandsfélagið útvegaði Kaupþing til að standa að samningunum.
Í svarbréfi Ólafs Ólafssonar til nefndarinnar er fullyrt að „engum blekkingum [hafi] verið beitt gagnvart ríkinu“ þegar hluturinn í Búnaðarbanka var keyptur, S-hópurinn hafi boðið hæsta verð fyrir hlutinn og ríkið hafi fengið kaupverðið greitt að fullu.
Rannsóknarnefndin fær ekki séð að ríkið hafi á nokkru stigi verið upplýst um þessa samninga. Rúmum tveimur árum eftir kaup þýska bankans í Búnaðarbankanum hafði hann selt hlutinn til Ólafs Ólafssonar og félaga í S-hópnum.