Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra segir að hann finni á fólki að þeim finnst óþægileg tilhugsun að kunnuleg nöfn úr íslensku atvinnulífi séu að baki kaupum vogunarsjóða á stórum hlut í Arion banka.
Sagði Sigurður Ingi á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að margt slæmt sé við sölu Arion banka, vogunarsjóðir hugsi um skammtímagróða. Heimilin í landinu hafi verið mjólkuð eftir hrun og því fór Framsóknarflokkurinn fram með skuldaleiðréttinguna:
Og þess vegna er það soldið sérstakt að sjá það núna að þessum aðilum sé hampað núna sem einhverjum langtíma fjárfestum, gott að fá inn erlent fjármagn. Þeir eru auðvitað að selja soldið sjálfum sér.
„Traust byggist fyrst og fremst upp á gagnsæi“
Lögum samkvæmt ber fjármálafyrirtæki að tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu á hverjum tíma. Greint var frá því á vef Arion banka að enginn einstaklingur á, beint eða óbeint, 10% eða meira í félagi sem á meira en 1% í Arion banka.
Hefur Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata lagt fram fyrirspurn til Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra um hvort hann áformi að breyta þessum lögum og hvaða rök finnst ráðherra vega það þungt að þau réttlæti að halda slíkum upplýsingum leyndum fyrir landsmönnum.
Aðspurður um hvað myndi vinnast með því að fá fram nöfn einstaklinga segir Sigurður Ingi:
Traust byggist fyrst og fremst upp á gagnsæi. Ef þú veist við hverju þú ert að eiga viðskipti þá líður þér betur með það. Af því við erum búin að ganga í gegnum þennan öldusjó þá liggur það oft á baki fólks að þeir sem fóru með peningan úr landi fyrir hrun af því þeir vissu hvað var að fara að gerast komu síðan inn með peninga með einhverjum hætti hvort sem var með afsláttaleið Seðlabankans eða öðrum leiðum að þeir séu þarna líka og það pirrar okkur eðlilega að okkar eigin landsmenn að fólk sem var með okkur í uppganginum ef svo er. Þess vegna skiptir máli að koma því á hreint.