Í tilefni af umræðu um fiskeldisáform á Austfjörðum er áhugavert að skoða lítillega hvaða reglugerðum, lögum og skipulagsstefnu Skipulagsstofnun og stjórnvöld vinna eftir. Það verður ekki allt afgreitt í einni grein þar sem umræðan er hávær en óskýr. Hún virðist á annan bóginn mótast af sjónarmiðum þeirra sem finna greininni allt til foráttu vegna mengunar og umhverfisáhrifa, en hins vegar öflugri áróðursmaskínu sem leggur áherslu á atvinnuuppbygginguna sem greininni fylgi. Í síðasta tölublaði var sjónarmið aðila í ferðaþjónustu kynnt til sögunnar en að þessu sinni munum við skoða fyrirbæri sem kalla má tæknilega nálgun umhverfis og auðlindaráðuneytisinsog varðar það að halda skipulagsvaldi yfir fjörðum og hafsvæðum allt í kringum landið. Fyrirbærið heitir Landsskipulagsstefna.
Skipulagslög- og stefna
Samkvæmt skipulagslögum, nr. 123/2010, getur landsskipulagsstefna tekið til landsins alls og efnahagslögsögunnar og því fyrirséð að almenn stefna um skipulag á haf- og strandsvæðum Íslands geti verið sett fram þar. Landsskipulagsstefna byggist á markmiðum skipulagslaga og skal taka mið af fyrirliggjandi áætlunum opinberra aðila sem varða landnotkun, auk greiningar á stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Ljóst er að í stefnunni kemur ekkert fram um það að sveitarfélög geti haft úrslitavald um það hvernig svæðum er úthlutað til einkaaðila til að koma á fót fiskeldi, en í henni koma þó fram upplýsingar um það hvar bannað sé að koma fyrir fiskeldi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þar er kveðið á um að Austfirðirnir frá Seyðisfirði og suður fyrir land sé svæði þar sem fiskeldi verði leyft.
Samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á landsskipulagsstefnu við gerð svæðisskipulags og taka mið af henni við gerð nýrra áætlana eða breytinga á aðalskipulagi en stefnan skal jafnframt byggjast á markmiðum skipulagslaga og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Sem er í sjálfu sér gott.
Starfshópar og vistkerfisstuð
Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði árið 2014 starfshóp til að vinna að gerð lagafrumvarps um skipulag hafs og stranda þar sem mótuð verði umgjörð um stjórnsýslu skipulags haf- og strandsvæða, helstu stjórntæki við skipulagsgerðina og landfræðilega afmörkun þeirra. Sú stefna um skipulag haf- og strandsvæða sem sett er fram í landsskipulagsstefnu tekur mið af því að lagaumgjörðin um málaflokkinn er enn í mótun. Skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum er almennt ætlað að stuðla að vernd og viðhaldi vistkerfa, draga úr árekstrum ólíkrar starfsemi og stuðla að betri og upplýstari ákvarðanatöku. Ég veit ekki hvers vegna sumstaðar er bannað að vera með fiskeldi en margs konar starfsemi fer fram á haf- og strandsvæðunum við Ísland og fyrirséð að aukin sókn verði í auðlindir þeirra, eins og raunin hefur orðið. Almennt er gengið út frá svokallaðri vistkerfisnálgun til að stuðla að viðhaldi og eflingu vistkerfa.
Burðarþol fjarða
Vistkerfisnálgun felur í sér að ákvarðanir um nýtingu auðlinda byggjast á bestu vísindalegu þekkingu um vistkerfið og að haft sé virkt eftirlit með ástandi þess og samræmd heildarstjórnun höfð á athöfnum manna. Krafa um mat á burðarþoli fjarða eða afmarkaðra strandsvæða til að taka við lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið er dæmi um stjórnun nýtingar á haf- og strandsvæðum sem byggist á vistkerfisnálgun. Með breytingum á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, sem gerðar voru árið 2014 er gerð krafa um að slíkt burðarþolsmat verði framvegis lagt til grundvallar leyfisveitingum til sjókvíaeldis. Sem er gott. En ber fagur eyðifjörður fjölbreyttar tegundir starfsemi; fiskeldi og ferðamenn? Hnignun búsvæða er talin helsta ógnin við fjölbreytni lífríkis í hafinu við Ísland en ýmiss konar álag getur raskað búsvæðum sjávar, til dæmis efnistaka, en einnig mengun eða breytingar í umhverfi vegna loftslagsbreytinga. Þannig getur mengun frá fiskeldi í sjó haft áhrif á ástand strandsjávar og nýtingu auðlinda hans og notagildi til útivistar og ferðamennsku.
Upplýsingar undirstaða skipulags
Heildstæð öflun upplýsinga um sjótengda starfsemi og svæði sem hafa verið vernduð eða nýting þeirra á einhvern hátt takmörkuð er ein af undirstöðum skipulagsgerðar á haf- og strandsvæðum og mun styðja við sjálfbæra nýtingu auðlinda þeirra. Þó liggur fyrir að slík skipulagsgerð er mismikið aðkallandi eftir landshlutum, þar sem bæði landfræðilegar aðstæður eru ólíkar og ólík starfsemi fer fram. Sjókvíaeldi hefur til dæmis aðallega byggst upp og verið áformað á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem aðstæður eru ákjósanlegar, en auk þess ræðst staðsetning sjókvíaeldis af því að bann er við eldi laxfiska á tilteknum strandsvæðum umhverfis landið. Rými fyrir sjókvíaeldi er því takmarkað en jafnframt hefur fiskeldi verið í miklum vexti síðustu ár. Því er fyrirsjáanlega brýnt að vinna svæðisbundnar skipulagsáætlanir á strandsvæðum við Vestfirði og Austfirði þar sem taka þarf á hugsanlegum hagsmunaárekstrum sjókvíaeldis við aðra nýtingu og verndarsjónarmið.
Í ljósi allra þessara upplýsinga um markmið landsskipulagsstefnunnar er ekki úr vegi að kalla eftir því að þessar svæðisbundnu skipulagsáætlanir stjórnvalda séu almenningi kunnar og ljósar. Annars geta íbúar ekki haft áhrif á nýtingu landsvæða sem þeir telja heldur ákjósanlegri að verði nýtt til uppbyggingu ferðaþjónustu með því að hafna því að þar verði veitt starfsleyfi fyrir fiskeldi.