fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
Eyjan

Flokkar í frjálsu falli

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 24. mars 2017 08:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Það lá ætíð ljóst fyrir að áhættusamt væri fyrir Viðreisn að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Í huga stórs hluta kjósenda var og er Viðreisn útibú frá Sjálfstæðisflokki, bara örlítið frjálslyndari útgáfa. Viðbúið var að nokkuð færi að slá í frjálslyndið þegar flokkarnir tveir væru komnir í samstarf. Nú, örfáum mánuðum eftir kosningar, sést sáralítill munur á þeim. Fyrir vikið eru kjósendur Viðreisnar á flótta frá flokki sem samkvæmt skoðanakönnunum er í hættu á að þurrkast út af þingi.

Nú eru skoðanakannanir sannarlega ekki það sama og kosningar. Við munum hvernig fór með fylgi Pírata, það var í hæstu hæðum lengi vel en kjósendur flokksins skiluðu sér ekki í kjörklefann í samræmi við það. Dæmi eru einnig um að flokkar hafi bjargað sér frá afhroði á lokaspretti kosningabaráttu. Þingmenn Viðreisnar hafa þó fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af slæmu gengi í skoðanakönnunum og líklega hefur sjálfstraustið eitthvað dalað. Eða hvernig á annars að skýra það að ráðherra flokksins, Benedikt Jóhannesson, vildi ekki mæta Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í umræðum á Stöð 2? Ráðherrar eiga ekki að láta það fréttast að þeir hafi ekki þorað að mæta pólitískum andstæðingi. Nema þá að fjármálaráðherrann sé svo hrokafullur að hann telji sig yfir það hafinn að mæta fyrrverandi forsætisráðherra í kappræðum.

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Viðreisn er komin í tilvistarkreppu og þingmenn flokksins verða að gyrða sig í brók ætli þeir að eiga hljómgrunn hjá þjóðinni. Vandséð er að þeir nái að hífa upp fylgið meðan þeir starfa í skjóli Sjálfstæðisflokksins.

Staða Bjartrar framtíðar er sömuleiðis afleit. Ef flokksmenn hafa hugsað sem svo að fylgið sem þeir fengu í síðustu kosningum væri stöðugt og myndi endast hjá þeim þá er það tálsýn. Flokkurinn, sem gaf sig út fyrir að vera frjálslyndur flokkur, er að fá á sig það orð að vera taglhnýtingur íhaldsins. Nokkuð má vissulega á sig leggja til að halda friðinn á stjórnarheimilinu en þetta ríkisstjórnarsamstarf kann að reynast banabiti Bjartrar framtíðar. Liðsmenn Bjartrar framtíðar tala iðulega um mikilvægi bjartsýninnar og vissulega er hún oft góður ferðafélagi – meðan hún er ekki á kostnað raunsæis. Þetta stjórnarsamstarf er ekki að virka fyrir Bjarta framtíð og ekkert bendir til að það muni breytast. Björt framtíð þarf að bregðast við.

Á meðan siglir Sjálfstæðisflokkurinn lygnan sjó undir stjórn Bjarna Benediktssonar, manns, sem eins og kötturinn, virðist eiga sér mörg líf. Sjálfstæðisflokkurinn á afar sterkan hljómgrunn meðal hægri sinnaðra landsmanna, sem eru allmargir. Þeir sjá enga ástæðu til að kjósa eftirlíkingar, eins og Viðreisn og Björt framtíð eiga á hættu að verða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?

Illugi Jökulsson: „Dómadagsþvaður“ frá þingmanni í ræðustól Alþingis – skyldi maðurinn ekki skammast sín?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Skattagleði ríkisstjórnarinnar – „Þau bara hækka gjaldið á almenning í landinu“

Skattagleði ríkisstjórnarinnar – „Þau bara hækka gjaldið á almenning í landinu“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Sundruð stjórnarandstaða – umboðslausir þingflokksformenn

Orðið á götunni: Sundruð stjórnarandstaða – umboðslausir þingflokksformenn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Þinglok

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Þinglok
Eyjan
Fyrir 1 viku

Golfhöggið á Hönnu Katrínu geigaði – „Kannski komumst við í fyrramálið“

Golfhöggið á Hönnu Katrínu geigaði – „Kannski komumst við í fyrramálið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði: Óhamingjusamur málþófsmaður í prívat hagsmunagæslu

Svarthöfði: Óhamingjusamur málþófsmaður í prívat hagsmunagæslu