„Það er hræðilegt til þess að vita að ungt fólk virðist ekki gera sér grein fyrir þessari miklu hættu,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, um mikla aukningu ungra öryrkja. Hún segir allt að fjörutíu ungmenni veikjast árlega vegna geðraskana og vímuefnavanda. Margir kannabisreyki sig inn í geðrænan vanda.
„Okkur heyrist a það sé mikil fjölgun á tvíþættum vanda, að ungt fólk sé að veikjast, sérstaklega eftir kannabisreykingar, fari í geðrof,“ segir Anna Gunnhildur í samtali við RÚV. „Eitthvað af þessu fólki myndi veikjast en þá seinna á ævinni og verða þá fyrir minni áhrifum og sumir kannski aldrei.“
Við erum að tala um að á hverju ári þá veikjast 30 til 40 einstaklingar á aldrinum 18 til 25 ára. Við höfum heyrt frá ættingjum, foreldrum, sögur um menn sem hafa verið að standa sig frábærlega vel í skóla, íþróttum. Átt marga vini og verið algjörlega á beinu brautinni en svo veikst og eru kannski orðnir öryrkjar 2 til 3 árum seinna.
Anna Gunnhildur segir þetta hræðileg dæmi um menn sem hafi kannabisreykt sig inn í örorku.
„Það þarf ekki endileg að vera að magnið skipti máli. Það getur alveg gerst ef það er undirliggjandi, eftir fyrstu reykingarnar. Þannig að þetta er veruleg hætta sem fólk verður að átta sig á.“