„Þótt hægt sé að bægja mislingum frá með bólusetningum eru mislingar víða að skjóta upp kollinum í Evrópu um þessar mundir hjá óbólusettum einstaklingum, einkum í Rúmeníu. Utan Evrópu og Bandaríkjanna eru mislingar víða landlægir.“
Þetta segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar – og nýsköpunaráðherra á Facebook eftir fréttir þess efnis að barn hér á landi hafi greinst með mislinga. Hefur Landlæknir gert varúðarráðstafanir og haft samband við foreldra þeirra barna sem gætu hugsanlega hafa smitast en mislingar smitast auðveldlega. Þórdís hefur áður tjáð sig um bólusetningar og gagnrýnt foreldra sem bólusetja ekki börnin sín.
„Foreldrar sem ekki bólusetja börnin sín; skammist ykkar og lesið ykkur til,“ var haft eftir Þórdísi á frétt á Vísi í desember á síðasta ári. Þá hafði sex vikna dóttir hennar, Kristín Fjóla greinst með kíghósta og var hætt komin. Dvaldi stúlkan á spítala í nokkra mánuði og stutt síðan barnið var útskrifað og er nú úr allri hættu. Fyrir veikindi stúlkunnar höfðu aðeins fjögur tilfelli greinst hér á landi. Fjögur tilfelli greindust árið 2015, eitt árið 2014 en rúmlega 30 árin 2012 og 2013. Þá sagði Þórdís:
Fyrir móður sem hefur gengið með barn í níu mánuði og passað upp á það inni í verndaðri bumbu, gert allt af líkama og sál til að koma því í heiminn og starað svo á það í nokkrar vikur, gefið því brjóst og hugsað um það er erfitt að horfa upp á barnið sitt agnarsmátt fimm kíló verða blátt í framan í hóstaköstum og þurfa vanmáttug að treysta á fólk sem veit og kann betur að hjálpa henni en ég.
Þórdís tjáir sig um tilkynningu Landlæknis sem birt var í dag. Í tilkynningunni kemur fram að barnið hafi smitast í Tælandi. Þórdís segir:
… þar myndi ég ætla, án þess að þekkja vel til, að fólk sé ekki að neita bólusetningu í miklum mæli heldur standi hún einfaldlega ekki öllum til boða með skipulögðum hætti líkt og í Evrópu og Bandaríkjunum og þess vegna séu mislingar útbreiddari í Tælandi. En það má aldrei gleyma hversu stutt er í raun í hættulega smitsjúkdóma og ástæðum fyrir bólusetningum. Og hvað margir í veröldinni myndu þiggja bólusetningu gegn lífshættulegum sjúkdómum.
Þá segir Þórdís enn fremur:
En ég fæ bara hraðan hjartslátt við að lesa þessa tilkynningu og lesa um einkennin. Hugsa til Kristínar Fjólu með sondu, súrefni og í sífelldum kíghóstaköstum með mig grenjandi við rúmstokkinn. Bið allt gott að hjálpa litla krílinu og foreldrunum.