Sérfræðingar segja húsnæðisverð á Íslandi hafa hækkað um 14,7 prósent árið 2016. Hvergi í heiminum hækkaði verð á húsnæði eins mikið og á Íslandi. Í Evrópu hefur hækkunin verið að meðaltali um 5,4 prósent, en 6 prósent í öllum heiminum. Þetta kemur fram í skýrslu breska ráðgjafafyrirtækisins Knight Frank.
RÚV greinir frá efni skýrslunnar þar sem verðhækkun hérlendis er rakin til sterkari efnahags, lækkunar stýrivaxta og aukins áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi. Í nágrannaríkjum okkar hefur fasteignaverðið mest hækkað um tíu prósent í Þýskalandi og Noregi, um 6,1 prósent í Svíþjóð, 4,5 prósent í Bretlandi og 3,9 prósent í Danmörku.
Næst mesta hækkunin í heiminum, á eftir Íslandi, er um 12,7 prósent í Nýja-Sjálandi, þar á eftir í Möltu og svo Kanada.