Lögmannsstofan LIBRA lögmenn í Reykjavík hefur sent Akraneskaupstaði bréf stílað beint á Ólaf Adolfsson formann bæjarráðs Akraness. Bréfið er sent 14. febrúar s. fyrir hönd Ingólfs Árnasonar. Í bréfinu er hann tilgreindur sem íbúi á Akranesi, en Ingólfur er þó jafnframt þekktur sem forstjóri og aðaleigandi iðnfyrirtækisins Skaginn3X. Bréfið var áframsent til stjórnar Faxaflóahafna og lagt fram á fundi stjórnar hafnanna föstudaginn 10. mars. Á fundinum var Gísla Gíslasyni hafnarstjóra falið að svara erindinu.
Kallað eftir upplýsingum
Vísað er til greina upplýsingalaga og óskað eftir gögnum og upplýsingum vegna sölu Faxaflóahafna á landareignum sem hafnirnar áttu í Reykjavík til Reykjavíkurborgar í júlí 2015. Akraneskaupstaður á um 10,77 prósenta hlut í Faxaflóahöfnunum og hefði því átt verulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við sölu lóðanna. Aðrir eigendur eru Reykjavíkurborg með 75% eignarhlut, Hvalfjarðarsveit með 9,24%, Borgarbyggð með 4,84% og Skorradalshreppur með 0,22%.
Þær lóðir sem um ræðir eru lóð Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, land á Geldingarnesi og Eiðsvík milli Viðeyjar, Gufuness og Geldinganess. Þessar lóðir munu Faxaflóahafnir hafa selt Reykjavíkurborg sem er langstærsti eigandi Faxaflóahafna fyrir 346,3 milljónir króna. Enginn vafi leikur á að þarna er um afar verðmætt byggingarland að ræða. Greinilegt er af erindi Ingólfs að hann vill fá svör við því hvort hagsmunir Akraneskaupstaðar hafi verið beðið hnekki og bærinn orðið af miklum fjárhæðum þegar landið var selt, jafnvel langt undir markaðsverði.
Fjölmargar spurningar
Ingólfur beinir spurningum sínum til Ólafs Adolfssonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem hann eigi sæti í stjórn Faxaflóahafna fyrir hönd Akraneskaupstaðar. Fyrsta spurningin er sú hvernig söluverð landareignanna hafi verið ákveðið?
Hafi söluverðið verið ákveðið eftir verðmati löggilts fasteignasala þá er óskað eftir því að fá afrit af því verðmati. Einnig er spurt hvert hafi verið bókfært virði landareignanna hjá Faxaflóahöfnum þegar þær voru seldar Reykjavíkurborg.
Fyrir hönd Ingólfs spyrja lögmennirnir einnig hvort þessar eignir hafi verið boðnar til sölu í opnu söluferli. Sé svarið nei þá er óskað eftir upplýsingum um af hverju það hafi ekki verið gert.
Auk þessa er spurt hverjir innan stjórnar Faxaflóahafna hafi tekið ákvörðun um sölu á eignunum til Reykjavíkurborgar. Það er líka kallað eftir svari við því ef fulltrúi Akraneskaupstaðar í stjórn Faxaflóahafnahafi greitt atkvæði með sölu eignanna, hvort málið hafi áður verið rætt í bæjarstjórn Akraness. Síðast er svo spurt hvort fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn Faxaflóahafna hafi vikið af fundi þegar ákvörðun var tekin um sölu á eignunum frá Faxaflóahöfnum til Reykjavíkurborgar.
Frestur runninn út
Beðið eru um svör við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 28. febrúar síðastliðinn. Sjá má á aftriti bréfsins sem birt er með fundargerð stjórnar Faxaflóahafna á vef þeirra að erindið hafi ekki verið móttekið og skráð inn hjá Akraneskaupstað fyrr en 2. mars, tveimur dögum eftir að fresturinn rann út. Steinar Adolfsson sviðsstjóri hjá Akraneskaupstað áframsendir erindið svo með bréfi dagsettu 6. mars til Gísla Gíslasonar hafnarstjóra Faxaflóahafna með ósk um að fyrirspurnum lögmanna Ingólfs Árnasonar verið svarað sem fyrst. Þar tekur Steinar fram að hann kunni ekki skýringar á því af hverju erindið hafi borist bænum svo seint miðað við dagsetningu erindisins frá lögmönnum.
Birtist fyrst í Vesturland. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.