„Ungir jafnaðarmenn fagna framtaki íbúa Berufjarðar og Hornafjarðar að mótmæla með róttækum hætti lélegu ástandi vega á landinu. Á sama tíma er óþolandi að grípa þurfi til slíkra aðgerða þegar jafnmikill efnahagslegur uppgangur er í samfélaginu og stjórnvöld vilja vera láta.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ungir jafnaðarmönnum. Kalla þeir endurskoðun samgönguáætlunar „svik“ og vilja jafnaðarmenn árétta mikilvægi samgangna, sérstaklega fyrir landsbyggðina:
Grunnforsenda fyrir byggðastefnu Íslands eru greiðar samgöngur milli byggðalaga og það er brýnt að byggja upp þá nauðsynlegu innviði sem samgöngur eru. Smærri byggðarlög hafa ekki þann aðgang að þjónustu sem þarf og er því mikilvægt að fólk sem þar býr geti sótt hana annarsstaðar. Ungum jafnaðarmönnum þykir sérstaklega mikilvægt að leggjast í uppbyggingu vegakerfis, sem þegar er langt undir æskilegum gæðum, í ljósi blómstrandi ferðamannaiðnaðar og álagið sem honum fylgir á stofnleiðir og þjóðvegi.
Hvetja þeir ríkisstjórnina til að fjármagna samgönguáætlunina að fullu:
Á hverju ári lætur fólk lífið í umferðarslysum sem hefði verið hægt að afstýra með tvöföldun vega, fækkun á einbreiðum brúm og öðrum ráðstöfunum sem lofað var í samþykktri samgönguáætlun. Ungir jafnaðarmenn hvetja núverandi ríkisstjórn að standa við gefin loforð og fjármagna samgönguáætlun að fullu.