Svanfríður Inga Jónasdóttir, fyrrverandi þingmaður og fyrsta konan sem varð bæjarstjóri á Dalvík, segir gengi Samfylkingarinnar í síðustu kosningum áhyggjuefni og vonar hún að menn beri gæfu til að stilla saman strengi. Í viðtali við Akureyri Vikublað, sem lesa má í heild sinni hér, segir Svanfríður að hún óttist öfgar og þjóðernispopúlisma í stjórnmálum.
Einhverra hluta vegna hefur hreyfing jafnaðarmanna klofnað látlaust alla síðustu öld, þetta er ein klofningarsaga, því miður. Vonandi bera menn gæfu til að stilla saman strengi. Ég óttast þær öfgar og þjóðernispopúlisma sem nú virðist vaða uppi í pólitíkinni, ekki síst á alþjóðavísu. Ég vona að við sjáum það breytast og held að veröldin þurfi á því að halda að vera með sterka hreyfingu jafnaðarmanna,
segir Svanfríður. Beðin um skýringar á slæmu gengi síns gamla flokks Samfylkingarinnar í síðstu kosningum segir Svanfríður:
Samfylkingin átti að verða breytingarafl sem flokkurinn náði svo ekki að sýna þegar hann var kominn í ríkisstjórn, en þá voru aðstæður líka fordæmalausar. Þar með glataðist það eina sem stjórnmálaflokkur þarf að hafa – traustið. Það mun taka tíma að vinna það til baka. Ég er samt alltaf bjartsýn. Vonandi kemur að því að menn átta sig á því hvað sterkur jafnaðarmannaflokkur er mikil nauðsyn og láti af persónulegum hégóma og valdastreitu.
Smelltu hér til að lesa viðtalið við Svanfríði í heild sinni.