Tillaga Hildar Sverrisdóttur um að borgarstjórn myndi beina þeim tilmælum til Alþingis að það yrði haft í huga við meðferð áfengisfrumvarpsins svokallaða að aukið aðgengi að áfengisverslun styddi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur um sjálfbærari hverfi, var felld í borgarstjórn í gær. Tillaga Hildar var hennar síðasta í borgarstjórn en hún tekur sæti á Alþingi og tekur Marta Guðjónsdóttir sæti hennar í borgarstjórn.
Sagði Hildur í samtali við Fréttablaðið í dag að það væri hennar mat að borgarfulltrúar ættu að geta samþykkt tillöguna ef þeir ætluðu að standa með aðalskipulagi borgarinnar:
Nú er það svo að áfengi er algeng neysluvara, hvað svo sem fólki kann að finnast um það. Þar sem meirihluti borgarbúa getur ekki nálgast þá neysluvöru innan síns hverfis, eða í göngufæri, vinnur sá punktur gegn þessu markmiði aðalskipulags,
sagði Hildur. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna segir tillögu Hildar vera setta í búning:
Þó tillagan sé vissulega klædd í þann búning að málið snúist um kaupmanninn á horninu þá snýr hún atur á móti að því að borgin sendi frá sér jákvæð tilmæli til Alþingis um frumvarp sem leyfir brennivín í búðir. Nær væri því að líta á tillöguna sem tilraun til þess að ginna borgarstjórn með nokkuð útsjónarsömum – jafnvel lymskulegum hætti – til að taka afstöðu með einu af stærri deilumálum Alþingis undanfarinna ára,
sagði Líf í ræðu sinni í borgarstjórn í gær.
„Af hverju þá ekki að ganga alla leið?“
Gagnrýndi hún frumvarpið harðlega og sagði það hugsað fyrir stórar verslanir sem væri hvort eð er fyrir utan hverfiskjarna sem þýddi að fólk myndi áfram keyra á milli hverfa til að versla áfengi.
„Ef við ætlum á annað borð að gefa áfengisverslun frjálsa og afnema ríkiseinokunina undir því yfirskyni að áfengi sé almenn neysluvara eins og matur og þvíumlíkt – af hverju þá ekki að ganga alla leið? Af hverju þora frjálshyggjumenn þessa lands ekki bara að ganga alla leið? Hvers eiga t.d. pylsuvagnar og ísbúðir að gjalda sem ekki fá að selja bjór með frómasnum eða einni með öllu? Af hverju mætti ekki alveg eins kaupa áfengi þar fyrst flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins líta áfengi þessum augum? Takmörkum við sölu osta eða spægipyslu við tiltekinn tíma eða skilyrði?“
Segir Líf nær að borgarstjórn beini tilmælum til Alþingis að fjölga Vínbúðum í Reykjavík til að komast til móts við sjónarmið um bætt aðgengi en að sínu mati væri besta niðurstaðan að sleppa því:
Í umræðum um málið talar enginn um hvað það sé frábært að geta keypt sér bjór í sjoppunni þegar maður leigir sér vídeóspólu. Það eru auðvitað allir hætti að leigja sér spólu en hvað um það … Það er öðru nær … málið virðist aðallega snúast um þægindin sem í því felast að kaupa sér hvítvín með humrinum á sunnudögum.