Það var full ástæða til að horfa til landsdóms vegna „Icesavemála“. Þetta segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag, sem er að öllum líkindum Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra. Gerir hann ummæli Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands um landsdóm að umfjöllunarefni, en Guðni sagði í gær að landsdómur eigi ekkert erindi í stjórnarskrána og það hafi sýnt sig að niðurstaða landsdóms hafi frekar sundrað en sameinað þjóðina og það á versta tíma og vísaði þar til málsins gegn Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra sem var sakfelldur fyrir að hafa ekki haldið fleiri ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni fyrstu mánuði ársins árið 2008:
Ég sagði það áður en ég tók við embætti forseta Íslands og segi það enn að í endurreisnarstarfinu eftir hrun var feigðarflan að nýta forn og úrelt ákvæði um landsdóm,
sagði Guðni. Davíð tekur undir með Guðna og segir notkunina á landsdómi hafa verið feigðarflan eins og staðið var að. Það sé hins vegar ekki vegna þess að ákvæðin um landsdóm séu forn enda mörg ákvæði lagasafnsins enn virk þótt þau séu mun eldri en ákvæði um landsdóm:
„Feigðarflanið fólst í því að pólitískir ofstækismenn fóru offari gagnvart stjórnmálalegum andstæðingum – Ákvarðanir þingsins um hverja skyldi ákæra voru forkastanlegar og svo ómerkilegar að undrum sætti,“
segir Davíð. Fjölmörg ríki hafi aðra ábyrgðarleið gagnvart helstu valdamönnum en hina almennu meðferð fyrir dómstólum, hefur henni verið beitt beitt í Bandaríkjunum gagnvart allnokkrum forsetum og eru ákvæðin sem brúkuð eru meira en 200 ára gömul. Davíð segir svo að lokum:
Full ástæða hefði verið að horfa til landsdóms vegna „Icesavemála“, þar sem stjórnsýslan var í molum, svo ekki sé talað um afhendingu tveggja banka til kröfuhafa með litlum eða mjög vafasömum heimildum.