fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Upplýsingar um athafnir og ákvarðanir stjórnsýslunnar

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 5. mars 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarin ár hafa verið stigin mörg og mikilvæg skref í að opna stjórnsýsluna á Íslandi fyrir almenningi með því að koma á framfæri upplýsingum um athafnir og starfsemi hennar. Með tækni og veraldarvefnum er orðið auðveldara að koma upplýsingum til almennings en áður var. Í sveitarstjórnarlögum frá 2011 og upplýsingalögum frá 2012 má til að mynda sjá að meiri krafa er á gagnsæi og að íbúar séu upplýstir um gang stjórnsýslunnar. Að setja slíkar kröfur í lög voru eðlileg viðbrögð við bankahruninu 2008 til þess að skapa traust á stjórnvöldum og koma upplýsingum upp á yfirborðið.

Sveitarfélögin standa framar ríkinu

Að mörgu leyti standa sveitarfélögin framar ríkisvaldinu í að veita almenningi upplýsingar um ákvarðanir og upplýsingar um gang mála í stjórnsýslunni. Þannig birta flest ef ekki öll sveitarfélög landsins fundargerðir sveitarstjórna og nefnda á vefnum. Þá hafa mörg sveitarfélög tekið upp á því að senda út bæjarstjórnarfundi í beinni útsendinguna og birta hljóðskrár frá fundum á vefnum. Einnig hafa nokkur sveitarfélög hafið að birta málsgögn funda á vef sínum og opnað bókhald sveitarfélagsins á sama vettvangi.

Opnun stjórnsýslunnar í Hveragerði

Ágætt dæmi um opnun stjórnsýslunnar má sjá hjá Hveragerðisbæ. Frá árinu 2010 hefur Hveragerðisbær stigið ákveðin skref í að opna stjórnsýsluna fyrir almenningi með því að birta meira af gögnum og auka upplýsingaflæði í gegnum vef bæjarins, sjá meðfylgjandi töflu. Frumkvæðið að birtingu upplýsinganna komu á síðasta kjörtímabili frá framboði A-listans í Hveragerði, en það var sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, VG og Framsóknarflokksins, og á yfirstandandi kjörtímabili frá Samfylkingunni og óháðum. Markmiðið hefur verið að auka gagnsæi í ákvarðanatöku bæjarins og koma upplýsingum um athafnir bæjaryfirvalda til íbúa. Ljóst er að þó að mikið hafi áunnist má gera enn betur. Má þar t.d. nefna að opna bókhald bæjarins og er stefnt að því að slík tillaga verði lögð fram á næstunni.

 

Frumkvæði Tillaga Dags. framlagningar Afgreiðsla
A-listinn í Hveragerði. Bein útsending bæjarstjórnarfunda á vefnum. 21. október 2010. Frestað til að kanna kostnað. Fyrsta beina útsendingin 8. mars 2012.
A-listinn í Hveragerði. Upptökur bæjarstjórnarfunda verði aðgengilegar á vefnum. 14. júní 2012 (ítrekun 7. maí 2013 og 13. júní 2013). Frestað til gerðar fjárhagsáætlunar 2013. Upptökur aðgengilegar frá 10. október 2013.
A-listinn í Hveragerði. Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa. 14. júní 2012. Tillaga samþykkt. Siðareglur samþykktar 13. júní 2013.
Samfylkingin og óháðir. Skráning fjárhagslegra hagsmuna bæjarfulltrúa. 15. október 2014 (ítrekun 10. maí 2015). Samþykkt. Hagsmunaskráning bæjarfulltrúa aðgengileg á vef Hveragerðisbæjar frá febrúar 2016.
Samfylkingin og óháðir. Birting fundargagna á vefnum. 8. janúar 2015 (ítrekun 11. júní 2015 og 14. janúar 2016). Samþykkt. Fundargögn aðgengileg á vef Hveragerðisbæjar frá febrúar 2016.

Yfirlit aðgerða til að opna stjórnsýslu Hveragerðisbæjar 2010-2016.

Þingsályktun um málaskrár á vefinn

Ríkið hefur því miður ekki enn tekið viðlíka skref í að opna gögn stjórnsýslunnar og sveitarfélögin þó að í upplýsingalögum sé kveðið á um að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Rétt er þó að geta þess að nýskipaður fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt að stefnt sé að því að gera upplýsingar um bókhald ríkisins aðgengilegt á vefnum.

Nýverið var dreift á Alþingi tillögu til þingsályktunar um rafræna birtingu málaskráa og gagna ráðuneyta. Tillagan er lögð fram af frumkvæði Samfylkingarinnar en meðflutningsmenn eru þingmenn Pírata og VG. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að unnt verði að veita almenningi rafrænan aðgang að málaskrám og gögnum ráðuneyta. Í greinargerð með tillögunni er m.a. vísað í fordæmi frá Noregi þar sem frá 2010 hafa verið birtar upplýsingar um tilurð u.þ.b. 20 milljónir skjala hins opinbera á vefnum www.oep.no. Fái tillagan framgang tekur ríkisvaldið risaskref í að auka aðgengi almennings að upplýsingum um stjórnsýsluna og auka gagnsæi. Færa má rök fyrir því að ef upplýsingar úr málaskrám ráðuneytanna hefðu verið aðgengilegar almenningi fyrir kosningar í október síðastliðnum hefðu upplýsingar um tilurð tveggja skýrslna, sem deilt hefur verið um undanfarnar vikur, verið ljósar almenningi og fjölmiðlum um leið og þær bárust ráðuneytunum en ekki mörgum vikum síðar.

Gagnsæi verndar almannahagsmuni

Þann 4. febrúar 2015 birti Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, grein í Fréttablaðinu undir heitinu Gagnið af gagnsæinu. Í greininni fjallaði hann um gagnsæi í verðbréfaviðskiptum og taldi fram mörg góð og gild rök fyrir því að stuðla skuli að gagnasæi, og sagði m.a. að það væri hornsteinn verðbréfaviðskipta. Á sama hátt má segja að gagnsæi sé hornsteinn lýðræðis og því ber stjórnmálamönnum að stuðla að opinni stjórnsýslu og birta upplýsingar um athafnir og ákvarðanatöku eins og hægt er. Upphafsorð Páls langar mig að gera að lokaorðum þessarar greinar og um leið hvetja íslenska stjórnsýslu til að vinna áfram að opnun hennar:

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og óháðra í Hveragerði.

Birtist fyrst í Suðra. Smellu hér til að lesa blaðið í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“