Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gagnrýnir frumvarp Óttars Proppé heilbrigðisráðherra um rafrettur harðlega. Segir hann ráðherra hafa átt að henda frumvarpinu beint í ruslið, engin greinargerð fylgi með frumvarpinu, sem sé illa unnið.
Hann hefði átt að henda því beint í ruslatunnuna en ekki einu sinni að senda þetta drasl til umsagnar,
sagði Ólafur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Var honum heitt í hamsi og sagði hugsunarháttinn í kringum þetta frumvarp virðast hafa snúist um það hafi verið ákveðið að rafrettur séu slæmar og engin þörf hafi verið á að ræða það neitt frekar:
„Ég í raun skil ekkert í nýjum heilbrigðisráðherra að slengja þessu fram. Þetta er augljóslega eitthvert embættismannafrumvarp, eitthvað svona hvernig embættismönnum í ráðuneytinu finnst að lífið eigi að vera og nýja ráðherranum er bara rétt það.“
Ólafur segir vissulega skiptar skoðanir um skaðsemi rafrettna, bent hafi verið á að rafrettur gætu verið farvegur fyrir fikt ungmenna sem í framhaldinu færu að reykja tóbak en þetta sé lítið metið í frumvarpinu. Gengið sé út frá því að það eigi að gilda sömu reglur um rafrettur og sígarettur:
Út frá því er bara hægt að álykta að ráðuneytið hugsi sem svo; rafrettur eru bara alveg eins og sígarettur. Maður þarf ekki að hafa kynnt sér málið nema í fimm mínútur til að vita að svo er alls ekki. Þess vegna er þetta galið frumvarp, það er ekki hægt að leggja þetta tvennt að jöfnu.