Þingmenn Pírata, ásamt þingmanni Framsóknarflokksins, hafa lagt fram frumvarp til breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem hefði það að verkum að þingmál sem hafa ekki fengið afgreiðslu á þingi falli ekki niður við lok þings nema það sé dregið til baka. Hingað til hafa mál fallið niður ef þau eru ekki afgreidd á þingi og ef það á að halda málinu til streitu þarf að taka það upp aftur á næsta þingi, er gjarnan rætt um að mál séu „svæfð í nefnd“.
Ef frumvarpið, sem þingmenn Pírata ásamt Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmanni Framsóknarflokksins hafa lagt fram, verður að lögum þá munu fastanefndir þingsins þurfa að leggja fram nefndarálit í málum sem til þeirra hefur verið vísað, ef umræðan fer ekki fram þá skuli taka málið upp aftur á næsta þingi. Málin falla þó niður við lok kjörtímabilsins.
Í greinargerð frumvarpsins eru reglurnar bornar saman við hin Norðurlöndin, en fyrirkomulagið hér á landi er fengið frá Danmörku þar sem þingmál falla niður við lok hvers löggjafarþings en í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru reglurnar almennt þær að þingmál geta lifað út kjörtímabilið. Er það mat flutningsmannanna að breytingarnar muni styrkja störf og lýðræðislega virkni þingsins.
Lagalegt álitamál
Silja Dögg segir í samtali við Eyjuna að hún hafi tekið eftir þessu þegar hún settist á þing 2013:
„Hvert þing er venjulega frá hausti fram á vor, það er ákveðinn hluti mála sem að klárast, yfirleitt eru það mál ríkisstjórnarinnar sem eru í forgangi. Svo kemur haust aftur og þá þurfum við alltaf að byrja á byrjuninni,“
segir Silja Dögg. Það þurfi að koma málinu aftur á dagskrá, ef það kemst til nefndar þá þurfi að óska eftir umsögnum frá sömu aðilunum og áður, umsagnaraðilar geti lent í þeirri stöðu að gefa umsögn nokkrum sinnum um sama mál:
Maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki kominn tími til að endurskoða þetta fyrirkomulag, þannig að ferlin geti haldið áfram á milli þinga nema að þingmaður óski sérstaklega eftir því að málið verði unnið frá byrjunarreit.
Silja Dögg segir þingmenn almennt jákvæða gagnvart breytingu af þessu tagi, það sé hins vegar lagalegt álitaefni hvort hægt sé að breyta reglunni nema með stjórnarskrárbreytingu. Í ræðu sem hún flutti á síðasta þingi vitnaði hún í minnisblað Ásmundar Helgasonar, þáverandi aðallögfræðingi Alþingis, frá árinu 2008 um að þetta sé stjórnskipunarvenja sem verði ekki vikið til hliðar með stjórnarskrárbreytingu.