Engu mátti muna að línubáturinn Hjördís HU 16 sykki síðsdegis í gær þar sem báturinn var að veiðum í Breiðafirði, skammt norðvestur af Gufuskálum á Snæfellsnesi. Tveimur mönnum var bjargað um borð í björgunarskipið Björgu frá Rifi eftir að þeir kölluðu á hjálp seint á fimmta tímanum í gær. Á vef Landhelgisgæslunnar má sjá ótrúlegar ljósmyndir af því hve báturinn var ofhlaðinn af afla.
Í ljós kom að mikil vanhöld voru á því að sjófarendur væru að hlusta á rás 16 í talstöðinni sem er neyðarrás sem ávallt á að vera opin. Þessu er lýst á vef Landhelgisgæslunnar:
Þá var reynt að kalla á vinnurás 11 í báta sem voru nær en ekkert svar fékkst. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ákvað því að að kalla út Björgu, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi.
Skömmu síðar tilkynnti skipstjórinn á bátnum að hann væri búinn að rétta sig af og sjór gengi ekki lengur inn. Þá var hann búinn að skera á línuna og annar bátur á leiðinni. Engu að síðar var ákveðið að Björg héldi sínu striki. Þegar hún nálgaðist bátinn um sexleytið kom í ljós að sjórinn farinn að ganga yfir lunninguna á honum og útlitið ekki gott.
Línuveiðarfærum var hent í sjóinn til að forða því að báturinn sykki. Þá rétti hann sig eitthvað af. Hjördís HU var tekinn í tog og skipverjar bátsins fóru um borð í björgunarskipið.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sem var á leið til æfinga á Vestfjörðum lagði lykkju á leið sína þegar fréttist af því að línubáturinn væri í vanda staddur.
Áfram segir á vef Landhelgisgæslunnar:
Það vekur bæði athygli og áhyggjur að bátar á svæðinu hafi ekki verið að hlusta á rás 16, sem er neyðarrás sjómanna. Þessi rás er eitt af mikilvægustu öryggistækjum sjófarenda en ef virk hlustun á hana er ekki fyrir hendi veitir hún falskt öryggi. Þá virðist líka ljóst að báturinn sem lenti í vandræðum var ofhlaðinn og ef hjálp hefði ekki borist í tæka tíð hefði hann að líkindum sokkið. Því er full ástæða til að hvetja sjófarendur til að gæta vel að því að taka ekki meiri afla um borð en báturinn getur borið.
Hjördís HU var dregin í Rifshöfn og landað úr henni þar.
Smellið hér til að sjá frásögn og myndir á vef Landhelgisgæslunnar.