Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að vinna og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar svo hjónavígsluréttindi og skráning nafngifta verði alfarið flutt til borgaralegra embættismanna. Frumvörpin verði lögð fram svo fljótt sem auðið er, þó ekki síðar en 1. október 2017, ef tillaga til þingsályktunar sem nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram á Alþingi verður samþykkt.
Flutningmenn tillögunnar eru þau Steinunn Þóra Árnadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Smári McCarthy, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson.
Í greinargerð með tillögunnar segir að markmið hennar sé að koma festu á það hvernig standa skuli að hjónavígslum og skráningu nafngifta á Íslandi.
„Sögulegar ástæður eru fyrir því að störf þessi hafa verið á verksviði presta þjóðkirkjunnar, fríkirkjusafnaða og í seinni tíð forystufólks annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Slík tilhögun er engan veginn sjálfsögð, þar sem um löggerning er að ræða sem óeðlilegt er að sé falinn sjálfstæðum félagasamtökum.
Lagt er til að hjónaefni þurfi ætíð að leita til borgaralegra embættismanna til að fá vígslu og það sama gildi um skráningu á nafngiftum ungbarna. Vitaskuld yrði hverjum og einum frjálst að fá þá blessun sem trú viðkomandi boðar á hvaða hátt sem er. Slíkur gjörningur hefði hins vegar ekkert gildi gagnvart hinu opinbera heldur varðaði einungis trúarsannfæringu hvers og eins.“