Íslensk stjórnvöld hafa formlega mótmælt tilskipun Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem banna komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom í morgun á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda á fundi með Benjamin Ziff aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, en Ziff er staddur hér á landi. Gerði Guðlaugur Þór meðal annars grein fyrir þeim afleiðingum sem bannið hefði hérlendis á íslenska ríkisborgara með tvöfalt ríkisfang sem eiga uppruna sinn að rekja til þeirra ríkja sem bannið nær til, en í gær var Meisam Rafiei landsliðsmanni Íslands í tækwondo meinað að ferðast til Bandaríkjanna til að keppa fyrir hönd Íslands á US Open-mótinu.
Bandaríkin hafa ætíð, og framar flestum öðrum, tekið opnum örmum á móti innflytjendum sem hafa mótað samfélagsgerðina þar í landi með mjög jákvæðum og afgerandi hætti. Tilskipun Bandaríkjaforseta er því mjög fjarri því sem við höfum átt að venjast frá Bandaríkjunum, og þeim gildum sem við eigum sameiginleg. Í því felast mikil vonbrigði og því var mikilvægt að koma skilaboðum á framfæri með skýrum hætti og milliliðalaust. Sá er vinur er til vamms segir,
segir Guðlaugur Þór. Utanríkisráðherra kom einnig á framfæri mótmælum við tilskipun Bandaríkjaforseta um að ekki megi veita fé til samtaka eða stofnana sem veita upplýsingar um fóstureyðingar eða veita aðgang að öruggum fóstureyðingum erlendis:
Aðgengi að öruggum fóstureyðingum er mikilvægt mannréttinda- og heilbrigðismál og því veldur sú tilskipun Bandaríkjaforseta sömuleiðis miklum vonbrigðum.