Meisam Rafiei, sem er bæði með íslenskt og íranskt ríkisfang, fékk ekki að fljúga með WOW-Air til Bandaríkjanna í dag vegna þess að hann er fæddur í Íran en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur bannað fólki frá Íran að ferðast til landsins. Meisam greindi frá þessu í dag á Fésbókarsíðu sinni en hann var á leiðinni að keppa í US Open-mótinu í tækwondo fyrir Ísland.
Ég var á leiðinni á US Open til að keppa fyrir Íslands hönd með íslenskt vegabréf en var hafnað því ég er fæddur í Íran
sagði Meisam á Fésbókarsíðu sinni. Meisam var kominn út í vélina þegar hann honum var gert að fara frá borði af kröfu bandarískra stjórnvalda. Líkt og Eyjan hefur greint frá þá hefur Trump tímabundið bannað fólki frá Íran, Sýrlandi, Írak, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan að ferðast til Bandaríkjanna.
Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi WOW Air sagði í samtali við Morgunblaðið að félaginu þætti þetta miður en það hafi ekki verið um annað að ræða en að fara að fyrirmælum stjórnvalda Vestanhafs. Rétt fyrir brottför hafi fyrirtækið fengið bréf þess efnis að óheimilt sé að fljúga með Meisam til Bandaríkjanna. Segir Svanhvít að WOW muni hins vegar koma til móts við Meisam sem og aðra farþega sem lenda í sömu stöðu, fá þeir flugið endurgreitt eða því breytt þeim að kostnaðarlausu.