Fyrir þetta augnarblik fékk Günter Schabowski pláss í veraldarsögunni. Hann var ekkert stórmenni, eiginlega bara flokksdindill úr Sósíalíska einingarflokknum sem stjórnaði Þýska alþýðulýðveldinu. Ekkert betri eða verri en flestir, stjórnmálin alls staðar eru full af svona mönnum – líka í lýðræðisríkjum. Mönnum sem komast lengra en efni standa til vegna þess að þeir hengja sig utan á stjórnmálaflokka.
Hugsjónalitlir menn sem geta flotið ofan á í hvaða kerfi sem er.
En sem talsmaður miðstjórnar flokksins fékk Schabowski það hlutverk að sitja fyrir svörum á blaðamannafundi 9. nóvember 1989 – fyrir 26 árum. Það ríkti glundroði innan flokksins, hann var að missa tökin, og Schabowski sagði óvart að komið væri á ferðafrelsi. Þetta var klúður hjá manninum, allavega gagnvart flokksforystunni, og reyndist afdrifaríkt. Kommúnisminn var orðinn svo veiklaður að þurfti ekki meira til að feykja honum um koll.
Hvenær opna landamærin? spurði fréttamaður.
Núna, ég veit ekki betur, sagði Schabowski.
Það var eins og við manninn mælt, fólk flykktist að Berlínarmúrnum og landamæraverðir réðu ekki neitt við neitt.
Günter Schabowski andaðist í dag í Berlín, 86 ára að aldri.