
Fyrir Píratahreyfinguna er feigð fólgin í því að ætla að verða öllum allt. Þegar einsmálshópar streyma inn í Pírata með kröfur sínar er stutt í endalokin. Maður talar nú ekki um ef Píratar myndu komast til valda og þyrftu að fara aða uppfylla óskir þeirra sem þola engar málamiðlanir eða tafir.
Fyrir Pírata er það vond hugmynd að bindast hreyfingu aldraðra – með fullri virðingu fyrir baráttu hennar – eða öðrum félögum af slíku tagi. Þeir græða ekkert á því – auka ekki fylgi sitt um svo mikið sem prósentustig. Píratar hafa náð árangri sínum með tiltölulega fáum og einföldum stefnumálum, sem byggja á grunnhugmyndum um betra stjórnkerfi og aukið gagnsæi.
Það er engin ástæða fyrir þá að flækja þetta. Fólk mun kjósa Pírata út á prinsíppin, ekki vegna þess að þeir fari að elta vinsældir og atkvæði út í hvern krók og kima.