

Össur Skarphéðinsson skensar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formann utanríkismálanefndar Alþingis, fyrir að halda aukafund um Þróunarsamvinnustofnun á sama tíma og Ólafur Ragnar Grímsson forseti er að ávarpa ráðstefnuna Arctic Circle í Hörpu.
Össur segir að þetta sé rakinn dónaskapur gagnvart forsetanum.
Meirihluta utanríkismálanefndar undir nýrri forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur liggur hins vegar svo rosalega á að slátra Þróunarsamvinnustofnun að boðað var með hraði til sérstaks aukafundar til að ganga frá henni – á nákvæmlega sama tíma og forsetinn flutti ræðu sína. Deila má um hvort þetta speglar fremur sérkennilega heift gagnvart Þróunarsamvinnustofnun eða sorglegt áhugaleysi á norðurslóðum.
Milli hans og Ólafs hafa löngum verið kærleikar og í téðri Facebook-grein hrósar Össur forsetanum fyrir hinar árvissu Arctic Circle ráðstefnur og segir að norðurslóðamál hafi verið „eitt litríkasta flagg utanríkisstefnunnar á síðasta kjörtímabili“.
Síðan hefur það reyndar gerst að strandríkin við Norðurskautið, Bandaríkin, Rússland, Kanada, Danmörk/Grænland og Noregur hafa rottað sig saman í eins konar innra heimskautaráð þar sem Íslendingar fá ekki að vera með. Það eru nákvæmlega engin teikn á lofti um að heimskautið verði sérlega mikilvægt fyrir Íslendinga á næstu áratugum.
En hvað varðar Arctic Circle þá má þó segja að talsverð lyftistöng er fyrir þennan félagsskap að fá sjálfan Frakklandsforseta, Francoise Hollande, á fund í eigin persónu. Má segja að það sé skúbb fyrir Ólaf Ragnar. Frakkar hafa lagt mikla áherslu á friðsama og umhverfisvæna nýtingu heimskautasvæða, meðal annars með því að senda hingað margoft Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra – Íslendingar eiga algjöra samleið með þeim og ESB í þessum málum.
Hollande er mun betri gestur en bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski sem situr í stjórn Arctic Circle og er fulltrúi stórolíunnar og þekktur afneitari loftslagsbreytinga – að ógleymdum sérstökum vini Pútíns, rússneska heimsvaldasinnanum Artur Chilingarov, sem einnig er í stjórninni.
Þessi tvö eru ekki góður félagsskapur.