

Líklega finnst mörgum í stjórnarliðinu gaman að sjá vinstri menn rífa hver aðra á hol í gagnkvæmum ásökunum um hverjum sé um að kenna að stjórnarskrármálið fór út um þúfur. Svikabrigslin ganga fram og aftur. Ný mynd um Jóhönnu Sigurðardóttur ýfir upp þessar deilur – þar er sagan náttúrlega sögð frá bæjardyrum þessarar ágætu stjórnmálakonu. Hún er náttúrlega að reyna að rita stjórnmálasöguna á sinn hátt.
En minnið er mjög valkvætt þegar kemur að þessu máli. Það virðist gleymast að á síðustu metrunum var stjórn Jóhönnu í raun minnihlutastjórn og að innan hennar var bullandi ágreiningur um stjórnarskrána og varla meirihluti til að þröngva henni í gegn.
Áköfustu stjórnarskrársinnar segja að stjórnin hefði þá átt að láta á þetta reyna, það hefði átt að beita þingskaparlögum og knýja fram atkvæðagreiðslu, standa og falla með stjórnarskránni. En það hefði þá ekki verið nema hluti ríkisstjórnar sem þegar var búið að kvarnast verulega úr eins og Ögmundur Jónasson segir:
Stjórnarráðið neitaði að horfast í augu við að ekki var fyrir því meirihluti á Alþingi að beita þingskapalögum til að höggva á umræðuna um Stjórnarskrána með því að svipta þingmenn málfrelsi og knýja fram atkvæðagreiðslu. Tillögur í þessa veru voru þó ræddar jafn fráleitt og það kann að hljóma. Sannast sagna veit ég ekki hvernig atkvæðagreiðsla um aðskiljanlega þætti stjórnarskrárdraganna hefði farið, jafnvel þótt meirihluti hefði náðst til að knýja hana fram.
Svo virðast menn líka gleyma hinum málunum sem klúðruðust á tíma vinstri stjórnarinnar, aðildinni að Evrópusambandinu, breytingum á kvótakerfinu og svo því að henni mistókst algjörlega að skapa betra og manneskjulegra bankakerfi.
Síðustu misserin var ríkisstjórn Jóhönnu farin að lifa sjálfa sig – og það stefndi í hörmulegan ósigur í kosningum. Ósigurinn var ekki vegna stjórnarskrármálsins. Hugsanlega hefði stjórnin átt að fara frá miklu fyrr, jafnvel eftir ófarirnar í Icesave-málinu. En það þurfti að sanna að loks gæti vinstri stjórn setið í heilt kjörtímabil – undir lokin var það nánast eins og réttlætingin á tilvist stjórnarinnar.