
Það er nóg af spám um að allt fari til andskotans á Íslandi ef laun hækka. Við heyrum þetta frá greiningardeildum banka og frá Samtökum atvinnulífsins. Það er svo merkilegt að spámennirnir voru margir í sömu hlutverkum fyrir hrun – en sáu þá ekki neitt. Allt kerfið féll saman með brauki og bramli – og það var ekki launafólki að kenna – og það kom þessu sama fólki alveg á óvart.
Áhyggjurnar verða alltaf mjög þungar yfir laununum, en hins vegar eru sjaldnast gerðar athugasemdir við sjálftöku á fjármálamarkaði, ofurgróða útgerðarinnar eða almenna misskiptingu í samfélaginu.
Einn vandinn er að það eru ekki til óháðir álitsgjafar um efnhagsmál og hagstjórn. Þeir eru upp til hópa að leika hlutverk, passa upp á hagsmuni. Hverjum getur maður tekið mark á?
Og annar vandinn er sá að fjölmiðlarnir hafa ekki á sínum snærum fólk sem getur séð í gegnum áróðurinn og hagsmunatengslin – fjölmiðlarnir eru einfaldlega ekki nógu sterkir til að geta greint hlutina sjálfir, rétt eins og var fyrir hrun.
Við erum nú samt í þeirri stöðu að laun eru lág á Íslandi – svo lág að fólk hefur enn ærna ástæðu til að flytja til Norðurlandanna – en húsnæði að verða svo dýrt að ungt fólk hefur ekki efni á því. Á sama tíma dælist fé inn í gegnum ferðaþjónustuna og verður svo áfram og það eru veltuár í sjávarútvegi. Krónan er enn lágt skráð og gengisfall ekki líklegt.
En brask er aftur komið á fullt og spákaupmennska og greiningarliðið er ekkert sérstaklega mikið að vara við því. Það eru teikn á lofti um að aftur sé farið í að blása upp hlutabréfabólu sem gæti sprungið með hvelli eins og síðast.