

Magnús Eiríksson er sjötugur í dag. Við hyllum einn frábærasta lagahöfund Íslands. Magnús kom með alveg nýjan tón inn í íslenska dægurmúsík með fyrstu plötum Mannakorns. Lögin voru grípandi og töff, og textarnir voru á góðri íslensku. Þeir voru blátt áfram, sögðu oft litlar og sniðugar sögur. Á plötunum voru hugljúf lög, ástarlög, dúndrandi rokklög, fyndin lög. Mín kynslóð hlustaði á þetta upp til agna.
Magnús stóð yfirleitt með gítarinn í bakgrunninum, var ekkert að trana sér fram að óþörfu, en hann var alltaf með frábærlega skemmtilegt band sem upphaflega var byggt upp á liðsmönnum úr sveitinni Pónik þar sem Magnús lék í eina tíð. Fremst voru söngvarar í heimsklassa, Vilhjálmur, Ellen og auðvitað Pálmi.
Ég held það hafi verið Guðmundur Andri Thorsson sem sagði að Magnús hefði komið með nýbylgju til Íslands fyrir tíma svokallaðrar nýbylgju sem gekk yfir tónlistarheiminn undir 1980.
Ég tala um Magnús í fortíð – það er auðvitað vitleysa, því hann er enn að bæta við sinn stóra og glæsilega katalóg. Til hamingju meistari.
Því miður er ekki að finna margar tónleikaupptökur með Mannakornum á netinu en hér er Gamli skólinn frá 1979. Þetta er það elsta sem ég finn og upptakan er því miður endaslepp. Pálmi syngur, Magnús er á gítar, og það er sveifla á bassanum hjá Jóni Kristni Cortes. Baldur Már Arngrímsson er á kassagítar, en Björn Björnsson leikur á trommur. Þetta eru þeir sem sjást í mynd.