Píratar hafa þrjá þingmenn á Alþingi, en þeir mælast með næstum þrjátíu prósenta fylgi. Það eru tíðindi.
Við þetta hljóta menn að skoða Píratana betur, hvað er það sem þeir standa fyrir – annað en að vera ekki partur af flokkakerfinu.
Innlegg Vilhjálms Bjarnasonar er ekki sérlega upplýsandi, en hann sagði í gær að Píratar kenndu sig við „skipulagða glæpastarfsemi“. Það má Vilhjálmur þó eiga að hann er ekki einn þeirra stjórnmálamanna sem dauðhreinsar orðaforða sinn eða notar orðin til að fela hvað hann á í rauninni við.
Það verður þó að segjast eins og er að viðhorf Pírata til höfundarréttar orka mjög tvímælis.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gagnrýnir Birgittu Jónsdóttur, harðlega fyrir að setja fram hugmyndir um kosningabandalag stjórnarandstöðu. Hann skrifar á Facebook:
Hugmynd um kosningabandalag gengur ekki í berhögg við grunnstefnu Pírata. En það að setja fram hugmynd um kosningabandalag án uppýstrar umræðu innan Pírata er ekki upplýst ákvörðun sem grunnstefna Pírata segir okkur þingmönnum að starfa eftir.
Það er líka skýrt í grunnstefnunni að afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru. Þessi hugmynd um kosningabandalag stjórnarandstöðunnar hefur lítinn hljómgrunn innan Pírata.
Píratarnir hafa starfað ágætlega á þingi, það er eins og þeir séu einlægari en hinir flokkarnir, en það er samt ljóst að þeir eru ekkert sérlega samstiga. Jón Þór er hallur undir frjálshyggju og tortryggni gagnvart ríkisvaldinu, Birgitta virkar stundum eins og mannkynsfrelsari með anarkísku ívafi – hún leikur einleik og er fljótfær eins og síðasta útspil hennar sýndi – en Helgi Hrafn er meira í ætt við gamaldags sósíaldemókrata.