Jón Gnarr sækir býsna hart að mannanafnanefnd þessa dagana og margir fylgja í kjölfarið. Til dæmis skrifar Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur á Facebook:
Að hafa þessa nefnd, og þessi últra diskríminerandi mannanafnalög er náttúrlega algert lykilatriði fyrir lýðræðið á Íslandi.. Hér mega sumir hafa ættarnafn en aðrir ekki.. Lög sem stríða gegn stjórnarskrá eru sumsé allt í lagi þar sem mikilvægara er að yfirvöld ráðskist með hvaða nöfn fólk má bera……………. Lengi lifi islenska lýðræðið… Lifi ítök menningarelítunnar sem þarf nauðsynlega að hafa vit fyrir sauðsvörtum almúganum.
Það er margt að athuga í þessu sambandi. Íslendingar hafa verið býsna íhaldssamir vegna tungunnar. Það hefur verið kallað málverndarstefna. Afleiðingin er sú að íslenska er mun minna enskuskotin en til dæmis danska og norska. Lög um mannanöfn eru önnur birtingarmynd þessa. Það er beinlínis kannað hvaða nöfn falla að íslenskri tungu og ekki er heimilt að taka upp ættarnöfn.
Með því er staðinn vörður um kerfi föðurnafna (og í seinni tíð móðurnafna) sem er við lýði hér en þekkist varla annars staðar í þróuðum löndum. Sumar fjölskyldur hafa ættarnöfn vegna þess að þær náðu að taka þau upp áður en þetta var bannað. En ættarnöfn er ekki að finna í Íslendingasögum.
Líklegt er að föðurnafnahefðin muni hverfa nokkuð skjótt ef nafngiftir verða gefnar alveg frjálsar. Föðurnöfnin eru hvort sem er fremur til óþurftar þegar maður fer til útlanda, að maður tali ekki um með börn. Þar heiti ég Helgason en sonur minn Egilsson. Þetta útheimtir of miklar útskýringar.
En svo er spurning hvað maður á að gefa mikinn afslátt af hefðunum? Hversu hörð þarf varðstaðan um tunguna að vera í hnattvæddum heimi? Stór hluti Íslendinga er núorðið nánast tvítyngdur. Krökkum þykir þjálla að tjá sig um margt með enskum orðum en íslenskum.
Hermt er að til séu um sex þúsund tungumál í heiminum. Líklegt er talið að helmingur þeirra verði útdauður við næstu aldamót. Eða er það kannski bara þróun og engin sérstök eftirsjá í því þótt allir fari að tala stórmál eins og ensku, kínversku eða spænsku?