1. maí göngur hafa löngum laðað til sín hópa sem berjast fyrir ýmsum málum. Ein frægasta 1. maí ganga á Íslandi var 1970 þegar Rauðsokkur héldu á stóru líkneski af konu niður Laugaveginn og með borða þar sem stóð „Manneskja, ekki markaðsvara“.
Feministar hafa stundum verið áberandi í þessum göngum, en eru það ekki nú. Á áttunda áratugnum gengu ýmsir hópar úr villta vinstrinu – þeir tóku hlutverk sitt svo alvarlega að oft var farið í strangar samningaviðræður fyrir 1. maí til að athuga hvort ekki væri hægt að „samfylkja“ – semsagt ganga saman.
Það tókst yfirleitt ekki, og því gengu Fylkingin, KSML og EIKml oftast hver í sínu lagi.
Í síðustu 1. maí göngum hefur Græna gangan svokölluð verið mjög fjölmenn. Hún kemur á eftir göngu verkalýðsfélaganna – þeir sem eru í Grænu göngunni veifa grænum fánum og hvetja til umhverfisverndar.
Ég sé á Facebook að rithöfundurinn, háskólakennarinn og bókmenntafræðingurinn Jón Karl Helgason spyr:
Hvernig tengist umhverfisvernd verkalýðsbaráttu? Sífellt stærri hópur fólks gengur niður Laugaveg og Austurstræti með græna fána 1. maí. Mun þessum hópi takast að sannfæra forkólfa verkalýðsfélaganna um loftlagsvá er það sem öðru fremur ógnar hagsæld umbjóðenda þeirra?
Þetta er áhugaverð pæling.
Örugglega má færa rök fyrir því að umhverfisvernd komi okkur öllum til góða, að þarna séu einhver stærstu mál samtímans.
En það má líka halda því fram að 1. maí sé baráttudagur verkalýðsins og að þörfin á verkalýðsbaráttu sé mikil – og alls ekki minni en verið hefur undanfarna áratugi. Vinstri hreyfingin hefur orðið nokkuð viðskila við verkalýðsbaráttuna – kraftur hennar hefur farið umhverfismál og baráttu fyrir félagslegum réttindum ýmissa hópa.
En á meðan hefur ójöfnuður í heiminum farið vaxandi – bók Thomasar Piketty er stór áminning um það – peningavaldinu hefur vaxið fiskur um hrygg, það er nánast ósnertanlegt, réttindi verkafólks eru á undanhaldi og kaup hefur staðið í stað. Við horfum fram á kynslóðir ungs fólks sem munu að líkindum hafa það talsvert verra en foreldrar þess, afar og ömmur.