Hér eru úrslitin í vali Kiljunnar á íslenskum öndvegisverkum.
Þátttakan í valinu var mjög góð, við fengum 620 svör. Svörin komu hvaðaæva að af landinu, það til dæmis er ánægjulegt að mörg þeirra voru tengd bókasöfnum víða um land. Margir rithöfundar tóku líka þátt.
Hver innsendandi gat nefnt 20-30 bækur. Það þýddi einfaldlega að mörg þúsund titlar voru nefndir, það væri gaman að birta einhvern tíma þann lista allan. En það er heilt bókasafn.
Við birtum aðallista sem inniheldur 150 titla. Þar trónir Njáls saga efst, en Sjálfstætt fólk er í öðru sæti. Af bókum núlifandi höfunda eru Englar alheimsins efstir. Í þeim lista eru bækur sem fá yfir 20 tilnefningar. Þess má geta að Njáls saga fékk 397 tilnefningar og var langefst, Sjálfstætt fólk fékk 355 tilnefningar.
Svo brjótum við þetta niður í smærri lista – lista yfir bækur lifandi höfunda, barnabækur, leikrit, ljóð, ævisögur, bækur eftir konur og verk Halldórs Laxness.
Þetta er að mestu til gamans gert. Ég hef kallað þetta samkvæmisleik. Við höfum líka notað orðið kanóna, en það er vandmeðfarnara. Það er gott ef þetta verður til að vekja athygli á bókmenntum okkar, fornum og nýjum. Því það verður að segjast eins og er að þessi örþjóð hefur skrifað furðulega mikið af bókum. Líklega má segja að hún sé ritóð.
En þá er þess að gæta, eins og sést á listanum, að hún hefur skrifað helling af góðum bókum. Ég held því reyndar fram fullum fetum að við séum að upplifa blómaskeið í íslenskum bókmenntum – og það má greina á listanum. Þetta helgast meðal annars af því að íslenskir höfundar eru nú þýddir á fjölda erlendra tungumála. Lesendahópur þeirra hefur stækkað, við það hafa þeir fengið meira sjálfstraust og orðið djarfari í leit að viðfangsefnum.
Í listanum felst ekkert stórkostlegt yfir- eða kennivald. Það er fullt af góðum bókum sem náðu ekki inn. Ljóðskáld sem hafa gefið út margar bækur en kannski ekki eina sem gnæfir yfir aðrar koma ekki sérlega vel út. Það mætti kanna ljóðin sérstaklega. En könnunin er samt nokkuð marktæk. Þegar búið var að telja 100 svör voru komnar ákveðnar línur sem héldust út á enda. Þessar línur hefðu varla breyst mikið þótt þátttakendur hefðu verið tíu sinnum fleiri.
Það að taka saman þennan lista hefur haft þau áhrif á mig að ég ætla að fara að lesa bækur sem ég hafði annað hvort ekki lesið eða sem ég las fyrir löngu. Auðvitað er hrikalegt hvað maður á margt ólesið Þannig finnst mér ég þurfa að skoða Höllu og heiðarbýlið eftir Jón Trausta og Skálholt eftir Guðmund Kamban, ævisögu Jóns eldklerks, sögu Jóns Indíafara, Reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur og svo bækur sem voru nefndar en komust ekki á aðallistann eins og Haustskip eftir Björn Th. Björnsson og Fjarri hlýju hjónasængur eftir Ingu Huld Hákonardóttur. Að ógleymdum verkum Svövu Jakobsdóttur sem eru ekki gleymd þrátt fyrir að vera ekki mikið í umræðunni.
Hér má sjá úrslitin á vef Ríkisútvarpsins.
Kálfalækjarbók, eitt af handritum Njáls sögu.