Sænska stórblaðið Dagens Nyheter birti frétt í gær þar sem segir frá auknum hernaðarumsvifum Rússa í Norðurhöfum. Þar er vitnað í orð Pútíns forseta þess efnis að byggt verði upp kerfi hafna fyrir rússnesk herskip en að auki sé í smíðum ný kynslóð kafbáta sem muni sigla þarna um.
Tilgangurinn er að verja hagsmuni Rússa.
Rússar hafa að stefnu að færa út hafsvæði sín í Norðurhöfum – sjá greinina Norðurskautið er rússneskt sem birtist hér á vefnum í mars.´Þeir gera tilkall til stærri svæða og auðlinda – með hervald að baki.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri sem saup marga fjöruna í Kalda stríðinu, skrifar á Evrópuvaktina að þetta boði að enginn friður verði á Norðurslóðum. Hann horfir auðvitað til atburða í Úkraínu og hefur rétt fyrir sér þegar hann skrifar:
Einræðissinnað stjórnvald, sem byggir fyrst og fremst á auðmönnum, leynilögreglu og herafla er í eðli sínu árásargjarnt. Við, og önnur aðildarríki Norðurskautsráðsins, eigum eftir að upplifa það á næstu árum.
Það er mikilvægt fyrir íslenzka hagsmuni að skýr og útffærð stefna komi fram af hálfu núverandi ríkisstjórnar um uppbyggingu Norðurslóða. Náið samstarf við Bandaríkin og Kanada er lykilatriði.
Styrmi yfirsést þó að heimskautaríkin eru fleiri, Íslendingar eru ekki í innsta hring, hinu svokallaða Arctic 5, þar sem eru Rússland, Bandaríkin, Kanada, Noregur og Danmörk – vegna Grænlands. Við erum hins vegar í Norðurheimskautsráðinu, en þar bætast líka við Svíþjóð og Finnland.
Þarna eru fjögur ríki sem teljast til Norðurlandanna og þrjú Evrópusambandsríki. Stefna Evrópusambandsins gagnvart Norðurskautinu er Íslandi hagfelld, hún gengur út á öryggi í siglingum, hóflega nýtingu auðlinda og umhverfisvernd, Michel Rocard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, hefur túlkað þessa stefnu í heimsóknum sínum til Íslands.
Þrátt fyrir ruglingslega utanríkispólitík síðustu ára, blasir við að meginstoðirnar í utanríkisstefnunni verða eins og áður lýðræðisríki vestursins og samtök þeirra Bandaríkin, Nató, Evrópa og EES/ESB plús Norðurlandasamstarfið.