Eitt af því sem einkennir Reykjavík er stærð umferðarmannvirkjanna og svokallaðra helgunarsvæða í kringum þau. Göturnar og bílastæðin taka mikið pláss, og svo eru stór auð svæði í kring. Þarf þetta að vera svona? Þurfa akvegir hér í þéttbýlinu að líta út eins og þjóðvegir úti í sveit?
Þetta var eitt af því sem var rætt á ágætum fundi hjá félagsskap sem nefnist Betri borgarbragur í Ráðhúsinu á miðvikudag.
Þetta á sérstaklega við um Miklubrautina. Hún flytur bílaumferð inn í borgina og það er auðvitað nauðsynlegt. En auðu svæðin í kringum hana eru feiki stór, það er eins og maður sé ekki kominn inn í borgina almennilega fyrr en við Grensásveg. Svo heldur maður áfram og við Miklatorg tekur aftur við þjóðvegur í þéttbýli og þannig er það alla leið að Reykjavíkurtjörn. Þarna er feikilega mikið land sem fer til spillis.
Þarf þetta að vera svona. Nei – þetta er afsprengi skipulags sem felur í sér sóun og vonda nýtingu á landrými. Á fundinum var bent á götur á Norðurlöndunum sem flytja fleiri bíla en Miklabrautin en þar sem húsabyggðin nær út að götunni eins og H.C. Andersens Boulevard í Kaupmannahöfn og Sveavägen í Stokkhólmi.
Væri þetta ekki hægt hér? Jú, en forsenda þess er líklega sú að umferðarhraðinn minnki aðeins. Raunar var á það bent að hægt væri að minnka hraðann niður í um það bil 50 kílómetra á klukkustund án þess að ferðatími lengist nema örlítið. Hins vegar kom fram að ekki væri ráðlegt að minnka hann meira en það.
Með þessu væri hægt að færa byggðina nær Miklubrautinni. Hún yrði meira aðlaðandi fyrir vikið – og við fengjum betri nýtingu á landi.
Það er byggt alveg út að Sveavägen í Stokkhólmi, en þar aka þó mun fleiri bílar á sólarhring en á Miklubraut.
Og hið sama gildir um H.C. Andersens Boulevard í Kaupmannahöfn.