Í nýjum pistli segist Elliði Vignisson bæjarstjóri hafa miklar áhyggjur af framgöngu „góða fólkisins“ á Íslandi.
„Góða fólkið“ telur sig þess umkomið að leggja sína óskeikulu mælistiku á hvað má og hvað ekki má. Þeir sem eru sammála þeim er tekið fagnandi í hóp „góða fólksins“ og þar með allt heimilt. Þeir sem eru ósammála eru hinsvegar séðir sem skaðlegir og öll meðul heimil til að koma í þá korki.
Og Elliði skrifar ennfremur:
Þeir sem ræða innflytjendamál og þá sérstaklega málefni hælisleitenda tipla á bæði hálum og þunnum ís. „Góða fólkið“ mætir allri slíkri umræðu með ásökunum um nasisma, rasisma og útlendingahatur. Umræðu um stöðu landsbyggðanna mætir „góða fólkið“ með áburði um að alið sé á hatri á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Umræðu um opinberan stuðning við menningu og listir er mætt með ásökun um hatur í garð listamanna og barbarisma. Umræðu um háan kostnað við rekstur utanríkisþjónustu er mætt með ásökunum um heimóttarskap. Lengi má áfram telja.
Það versta er að frá hruni hefur „góða fólkinu“ tekist að einangra umræðuna. Fáir eru tilbúnir til að verða útmálaðir rasistar, barbarar eða hatursmenn fyrir það eitt að taka þátt í þjóðfélagsumræðu. „Góða fólkið“ á því umræðusviðið. Hinsvegar er ekki alveg víst að það sé til góðs fyrir land og þjóð.
Þetta er ekki í fyrsta sinn að maður heyrir talað um „góða fólkið“ með þessum hætti. Tryggvi Þór Herbertsson, sem þá var alþingismaður, skrifaði um þessa manntegund haustið 2010 og taldi að „góða fólkið“ væri til vandræða, það æli á sundrung og græfi undir rausti meðal manna:
Í kjölfar hrunsins hefur orðið til þjóðflokkur manna og kvenna hér á Íslandi sem til aðgreiningar frá öðrum mætti kalla „Góða fólkið“. Góða fólkið hefur góð tök á að tjá sig á netinu og bloggar oftar en ekki fasta dálka á vinsælustu síðum landsins. Málflutningurinn minnir oft og tíðum á spænska rannsóknarréttinn. Góða fólkið sér heiminn ávallt í réttu ljósi og getur á örskotsstund greint rétt frá röngu. Góða fólkið veit hverjir brestir mannanna eru og nafngreinir þá menn sem búa yfir þeim miskunnarlaust. Góða fólkið veit hvað er Íslendingum fyrir bestu og hvað það er sem afvegaleitt hefur okkur. Góða fólkið getur talið upp þá sem valdið hafa því sem það kallar ógæfu Íslands blindandi. Góða fólkið á það sameiginlegt að hafa ekki átt neinn þátt í neinu sem miður hefur farið. Skoðanir góða fólksins eru rétthærri skoðunum „hinna“.
Afleiðingarnar af málflutningi Góða fólksins eru: sundrung, tortryggni, afbrýðisemi, öfund, illmælgi og rógur.
Góða fólkið hefur grafið undan trausti manna í millum á Íslandi!
Jónas Kristjánsson notaði þetta eitt sinn, það var árið 2005 og líkti þá „góða fólkinu“ við farísea:
Góða fólkið er hornsteinn þjóðfélagsins eins og farísearnir í Nýja testamentinu. Það veit af stöðu sinni í þjóðfélaginu og vill ekki heyra eða lesa fréttir af fólki, sem hefur orðið undir í þjóðfélaginu. Almennt telur það, að opinberir aðilar gegni vel skyldu sinni og að gagnrýni sé til ills.
Ég verð samt að segja eins og er, þetta er frekar óljóst. Stundum sé ég líka að mínum gamla vini Jakobi Bjarnar verður tíðrætt „góða fólkið“, en mér tekst aldrei að skilja það nógu vel. Það þarf máski að skilgreina „góða fólkið“ aðeins nánar.
Er hugsanlegt að þetta sé vont gott fólk?