Í Kiljunni á miðvikudagskvöldið fjöllum við um nýjar bækur sem eru að koma út þessa dagana.
Guðrún Eva Mínervudóttir kemur í þáttinn og segir frá skáldsögu sem ber heitið Englaryk. Bókin fjallar um stúlku sem á heima í Stykkishólmi – og fær vitrun.
Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði, segir frá bókinni Maðurinn sem stal sjálfum sér, en hún fjallar um Hans Jónatan, þræl úr Karíbahafinu sem settist að á Djúpavogi í byrjun 19. aldar.
Orri Harðarson segir frá skáldsögunni Stundarfró – hún hefst á Akureyri á síðasta áratug 20. aldar, þar sem býr gömul kona og dótturdóttir hennar, en þær fá svo ölvað ungskáld í heimsókn.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Kötu eftir Steinar Braga og Gosbrunninn eftir Guðmund S. Brynjólfsson.
Í dagskrárliðnum Bækur og staðir förum við á Patreksfjörð.