Ríkisstjórnin er ekki í þægilegri stöðu.
Bjarni Benediktsson lýsir því yfir að ef ríkiseignir verði seldar fari það í lækkun skulda en til dæmis ekki í byggingu nýs spítala.
En þá hljóta menn að spyrja á móti hvers vegna á að verja á stórum fjárhæðum í að lækka verðtryggð lán fremur en að nota þá peninga til að lækka skuldirnar?
Skuldirnar eru að sönnu óþægilegar – þær bera vexti upp á 90 milljarða á ári. Til að standa undir skuldunum þarf að afla mikils gjaldeyris. En nú er staðan sú að viðskiptajöfnuðurinn er ekki nægilega hagstæður til þess. Við erum einfaldlega að eyða of miklu – til dæmis í bíla. Einkaneyslan á Íslandi er of mikil. Gengi krónunnar má helst ekki hækka. Það er jafnvel spurning hvort ekki þurfi að herða gjaldeyrishöftin fremur en hitt?
Meðan staðan er svona erum við í raun með þjóðarbú sem er gírað inn á að borga skuldir. Það er eiginlega ekki hægt að bæta í með því að byggja spítala eða hækka laun – sem ekki er þó vanþörf á. Þegar horft er á þessa stöðu verður að segjast eins og er að skuldaleiðréttingin virkar sem stílbrot, þótt hún verði eflaust kærkomin mörgum.