Fólk sem starfar lengi í stjórnmálaflokkum er svolítið öðruvísi en við hin sem höfum varla komið inn fyrir dyr í flokkunum.
Því finnst að þeir sem hafa verið í flokknum eigi að fá eitthvað fyrir sinn snúð – einhverja umbun fyrir ómakið.
Hvort sem þeir verðskulda það sérstaklega eða ekki. Á ensku er þetta kallað a sense of entitlement. Ótal alvöru verkefni geta blasað við (til dæmis heilbrigðisþjónusta sem er að hrynja), en stjórnmálaflokkarnir gleyma ekki sínum.
Í velflestum starfsgreinum eiga menn ekki sérstaklega von á neinni slíkri umbun.
Þannig er Geir H. Haarde nú gerður að sendiherra í Washington. Hann er settur beint í toppdjobbið í utanríkisþjónustunni.
Erfitt er að sjá að neitt sérstakt tilefni sé til þessa – nema það sem stendur hér fyrir ofan, hann hefur verið í stjórnmálaflokki og þarf að fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Geir getur sjálfsagt orðið ágætis sendiherra, en fyrir þá sem horfa á utanífrá virkar þetta svo innilega tilgangslaust.