Ingunn Ásdísardóttir er feikilega vel að Íslensku þýðingarverðlaununum komin. Þau hlýtur hún fyrir bókina Ó – sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen. Bókin er þýdd úr færeysku – þetta er stór bók bæði í sniði og hugsun, það var ekki áhlaupaverk að þýða þennan texta.
En það gerir Ingunn af feikilegri list.
Annars er þetta eiginlega hálf sorglegt – eða kannski gleðilegt.
Þarna voru nefnilega tilnefndar aðrar þýðingar sem hefðu verið mjög verðugar þessara verðlauna. Jú, það er sorglegt að þær séu ekki verðlaunaðar, en gleðilegt að slíkar afbragðsbókmenntir skuli birtast í góðum íslenskum þýðingum.
Þarna er hið mikla rit Rannsóknir eða Istoriai eftir Heródótos, verkið sem segir frá stríðunum milli Grikkja og Persa. Stefán Steinsson gerði þá þýðingu.
Þarna er heildarsafn ljóða Tomasar Tranströmer, Nóbelsverðlaunahafans sænska, í þýðingu Njarðar P. Njarðvík.
Og þarna er eitt af höfuðverkum bandarískra bókmennta, As I lay dying, Sem ég lá fyrir dauðanum, en það þýddi Rúnar Helgi Vignisson.
Það hefur ekki verið auðvelt að velja milli þessara þýðinga, hver þeirra sem er hefði getað hreppt verðlaunin. Lesendur síðunnar eru hvattir til að kynna sér þessar bækur.