Menn eru að vitna í alls kyns kannanir um nýjan hægri sinnaðan Evrópuflokk – að hann myndi taka fylgi frá hinum eða þessum.
Frá Samfylkingu, Bjartri framtíð og Sjálfstæðisflokki.
Stundum er reyndar erfitt að greina milli Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, þar er jafnvel hægt að tala um höfuðból og hjáleigu. Og atkvæði frá Sjálfstæðisflokki kæmu náttúrlega á tíma þegar fylgi hans er í algjöru lágmarki.
En þetta eru auðvitað ekki annað en bollaleggingar. Það er erfitt að spá í svona hluti – þegar hlutirnir fara loks að gerast getur farið í gang atburðarás sem ekki var hægt að sjá fyrir.
Þannig var til dæmis um Besta flokkinn í Reykjavík. Hver hefði nokkurn tíma spáð því í upphafi árs 2010 að hann næði 35 prósenta fylgi í borgarstjórnarkosningunum 2010 og yrði stærsti flokkurinn?
Við höfum líka dæmi um að hlutirnir geti þróast í þveröfuga átt. Á síðasta kjörtímabili stofnaði Lilja Mósesdóttir sem nefndist Samstaða. Þegar flokksstofnunin var fyrst orðuð sögðu skoðanakannanir að hann gæti fengið allt að 20 prósenta fylgi. En flokkurinn lognaðist út af og náði ekki einu sinni að bjóða fram til þings.
Þannig að skoðanakannanir eru heldur ótryggur leiðarvísir í þessu. Þetta er spurning um mannval, málefni og tímasetningar – að ná að koma fram og springa út á réttum tíma.
Ein breytan í þessu er líka sú að það getur verið erfitt að stofna flokk snemma á kjörtímabili, þegar heil þrjú ár eru til þingkosninga – að því gefnu að ríkisstjórnin falli ekki. Það getur verið ansi erfitt að halda dampi í stjórnmálastarfi svo langan tíma án þess að eiga fulltrúa á þingi.
Það sem er hins vegar athyglisvert er að flokkshollusta er miklu minni en áður fyrr – og fleiri sem eru tilbúnir að kjósa eitthvað annað en fjórflokkinn.