Á vef Vísis birtist grein þar sem Kristinn Steinn Traustson kvartar undan því að skorti frambjóðendur í borgarstjórnarkosningum sem koma úr öðrum hverfum en byggðinni nærri miðbænum.
Það er sjálfsagt að vekja athygli á þessu. Samsetningin mætti vera fjölbreyttari – þótt reyndar sé alls ekki gefið að maðurinn í næsta húsi sé sammála manni um nokkurn skapaðan hlut.
Hins vegar er erfitt að sjá að hallað hafi á úthverfin í borgarþróuninni á Höfuðborgarsvæðinu – og raunar er líklegt að að það sé verra fyrir úthverfi að annað úthverfi byggist, aðeins utar, en að byggðin nær miðjunni styrkist.
Og það er ekki bara vegna þess að umferðarþunginn í áttina að miðjunni eykst til muna.
Á árunum fyrir hrun hljóp ofþensla í Höfuðborgarsvæðið. Vöxturinn var slíkur að hann hlýtur að teljast illkynja. Flæmið sem Höfuðborgarsvæðið nær yfir stækkaði um fjórðung prósent á fáum árum. Það er dæmalaust. Mikið af þessu byggði á fljótfærnislegu skipulagi – og rannsóknir hafa leitt í ljós að gæði bygginganna eru misjöfn.
Nú er nauðsynlegt að snúa við þessari þróun, þétta byggðina innanfrá. Því útþenslunni fylgir mikil sóun, það þarf að leggja nýja vegi, holræsi, rafmagn og hitaveitu, skóla, leikskóla – og umferðin eykst til muna. Líftími sums af þessu er ekki langur – fólkið í úthverfinu eldist og þá fækkar í skólunum og það eru byggðir nýir skólar í öðrum úthverfum. Við sjáum til dæmis mjög glögg dæmi um þetta í Hafnarfirði þar sem er sífellt verið að byggja nýja skóla.
Vegna þess hvernig úthverfin eru skipulögð gengur illa að halda uppi þjónustu í þeim. Byggðin er dreifð og það er hætt við að sóknin eftir þjónustunni fari annað. Grafarvogsbúar kvarta undan því að vanti verslun í hverfið. Ástæðan er einfaldlega sú að íbúar Grafarvogs fara annað til að versla. Kannski í búðir sem standa í næsta úthverfi – sem er Grafarholt.
Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur verður gefið út í bók á næstunni hjá forlaginu Crymogeu. Það er mjög merkilegt og metnaðarfullt plagg sem áhugafólk um borgarþróunina þarf að kynna sér. Eitt af því sem aðalskipulagið nýja gerir ráð fyrir er aukin þjónusta í hverfum, það sem kallast nærþjónusta. Hugmyndin er að allir hafi aðgang að verslun og þjónustu eins nálægt sér og hægt er. Önnur grundvallarhugmynd er að forða því að hverfi verið of einsleit hvað varðar byggingar og félagslega samsetningu.
Þétting byggðar – ekki bara í miðjunni, heldur í líka í öðrum hverfum er forsenda þessa.
Þéttingin er rétt að hefjast – og sums staðar á hún sjálfsagt eftir að mæta andspyrnu. Stundum getur hún verið eðlileg, stundum mun hún einkennast af því sem kallast nimbyismi. Eins og segir hér að ofan hefur þróunin síðustu áratugi verið í þveröfuga átt – það er ekki hægt að segja að sérstaklega hafi verið þrengt að þeim sem vilja þenja út byggðina.
Einn misskilningurinn er reyndar sá að hverfin í vesturborginni hafi fengið eitthvað rosa mikið á kostnað úthverfa.
Það er alrangt. Þegar sífellt er verið að byggja ný hverfi eru litlir fjármunir aflögu til að standa í framkvæmdum í eldri hverfum – hvort sem þau nefnast Grafarvogur eða Vesturbær.
Þar sem ég þekki til í Vesturbæ hefur ástandið verið nokkurn veginn svona.
Núna er loks verið að laga Vesturbæjarlaugina sem er löngu orðin úrelt – með lélega potta og ónýta sturtuklefa. Hér eru engir sparkvellir fyrir börn og þau eru í lífshættu þegar þau fara yfir Hringbrautina á leið á æfingar hjá KR. Þar æfa krakkarnir úti á vetrum á lélegum gervigrasvelli – því engin er knattspyrnuhöllin í gjörvöllum borgarhlutanum. Vesturbæjarskólinn er að springa vegna þrengsla og leiksvæðið hefur mestanpart verið lagt undir skúra sem eru notaðir sem færanlegar kennslustofur. Ástand gatna og gangstétta er víða mjög lélegt.
Hin feikilega útþensla borgarlandsins á árunum fyrir hrun.