Talsverðar umræður hafa spunnist um litla grein sem ég skrifaði fyrr í dag þar sem er að nokkru leyti tekið undir það með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að „nýfrjálshyggja“ hafi ekki valdið hruninu á Íslandi.
Einn þeirra sem tekur til máls er Ragnar Gunnarsson, læknir í Noregi, en hann setur stundum inn athugasemdir á vefinn. Það er margt býsna umhugsunarvert í orðum Ragnars.
Það má í raun benda á Ísland þar sem fram á síðasta áratug var í raun allt niðurnjörvað með pólitískri stýringu. Hér voru reknir ríkisbankar löngu eftir að flestar þjóðir hættu því með pólitískt kjörnum bankastjórum og raunar Seðlabankastjórum. Það var fremur höfðað til flokksskírteina en kunnáttu og á það jafn við stjórnir sem kenndu sig við vinstri eða hægristefnu. Þjóðfélagið var og er í raun klíkuvætt.
Ísland hefur í áratugi verið eftirbátur norrænu landanna hvað varðar framleiðni þar sem önnur sjónarmið en viðskiptalegs eðlis virðast fremur hafa ráðið ríkjum hér. Raunar er gríðarleg stærð íslenska Íbúðarlánasjóð, mönnum áhyggjuefni áratug fyrir hrunið. Í mörgum skýrslum OECD voru Íslendingar margvaraðir við þessu.
Ef við í raun berum saman Ísland við önnur nærræn ríki þá er áberandi hversu sterk ríkisafskipti voru og eru á Íslandi. Enda er hlutfall opinberra starfsmanna á Íslandi gríðarlega hátt.1. Við erum áreiðanlega með lélegasta, miðstýrðasta og óarðbærasta landbúnaðarkerfi í heimi. Menn þurfa nánast að fara aftur til gömlu Ráðstjórnarríkjanna til að finna annan eins óskapnað. Raunar er það tímana tákn að þar á hvorki að spara eða taka til. Það hefur í raun margfaldlega komið fram að þjóðhagslegur ávinningur er nær enginn og fæðuöryggi lítið enda byggist þetta mest á innflutttu fóðri, innfluttum áburði, innfluttum tækjum og olíu. Niðurgreiðslum, beingreiðslum og innflutningshömlum og væntanlega þegar allt er talið nærri tveir tugir miljarða af skattfé á ári. Það er kanski hægt að líkja okkur við Noreg en þar hafa menn þó efni á því og núverandi hægristjórn mun gera grunvallarbreytingar á þessu kerfi.
2. Í norrænu nágrannalöndum okkar er það mjög algengt að einkaaðilar reki skóla. Frá barna- og unglinga- upp í menntaskóla og framhaldsskóla. Þær kannanir sem gerðar hafa verið á íslensku skólakerfi benda því miður ekki til þess að þar sé neitt til eftirbreytni. Gríðarlega mannaflsfrekt. Kennarar fá til þess að gera lág laun og fólk útskrifast úr menntaskólum ári seinna en nágrannlöndin.
3. Hvað heilbrigðiskerfi viðvíkur er heilsugæslan einkavædd í Noregi síðustu 13 ár og ekki einu sinni á 8 ára starstíma síðustu vinstristjórnar í Noregi var það snert. Það sama á í raun við um Svíþjóð og Danmörku. Með á Íslandi er þetta rekið í gegnum ríkisreknar heilsugæslustöðvar sem er í raun að blæða út. Þetta kerfi er ekki og mun aldrei verða samkeppnishæft um starfsfólk við norræna og einkavædda kerfið. Í Noregi lögðu þeir niður heilsugæslubatteríið með manni og mús eyða sömu upphæð en nýtist miklu betur.
Það er mjög algengt á Norðurlöndum að það séu boðnar út aðgerðir og einkaaðilar séu undirverkatakar hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Eins er stór hluti íbúa landanna með einkatryggingu. Það er áætlað að um og yfir 10% Norðmanna séu með einkaheilsutryggingu.