Búsetumál Dorritar Moussaieff eru dálítið eins og kusk á hvítflibba forsetans.
Þetta væri kannski ekki stórmál ef venjulegur Íslendingur ætti í hlut, reyndar væri honum sennilega bannað að gera þetta, en þarna er um að ræða sjálft forsetaembættið – og Ólafur Ragnar telur sig reyndar vera í sérstöku trúnaðarsambandi við þjóðina.
Þetta gerist á algjörum hápunkti ferils hans, á tíma þegar hann lítur á sjálfan forsætisráðherra landsins sem skjólstæðing sinn – og kemst upp með það – og hefur áður óþekkt áhrif á hina pólitísku stefnu.
Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn virðist borða úr lófa forsetans.
Dorrit, sú ágæta kona, hefur orðið dálítið margsaga varðandi búsetuna. Það vekur ekki sérstakt traust, en viðbrögð forsetans sýna að honum þykir þetta óþægilegt.
Menn gera því skóna að þetta bendi til þess að Ólafur Ragnar ætli að hætta um mitt kjörtímabil eins og nefnt var fyrir síðustu kosningar.
En fyrir því eru engin fordæmi. Hví ætti forseti sem hefur verið kjörinn með slíkum meirihluta og nýtur vinsælda að hætta – nema ef kæmu til sérstakar ástæður eins og heilsubrestur? Kjörtímabil er fjögur ár, forsetinn getur ekki breytt því að geðþótta.