Hæ hó jibbí jæ og jibbí jei/það er kominn sautjándi júní.
Þetta er hinn eiginlegi hátíðarbragur á þjóðhátíð Íslendinga. Öxar vð ána og Guð vors lands komast ekki með tærnar þar sem þetta hefur hælana.
Það kann reyndar enginn meira en þessar tvær línur, þær eru sönglaðar aftur og aftur og það kemur ekkert meira.
Kannski er það dæmigert fyrir hvað þjóðhátíðardagurinn er innantómur.
Honum fylgja eiginlega engar hefðir – í fyrra samanstóð hátíðardagskráin i Reykjavík af fornbílaakstri og hoppuköstulum.
Það var ekki einu sinni haldin skemmtun um kvöldið, heldur var vísað í að gay pride og menningarnótt væru hinir eiginlegu þjóðhátíðardagar.
Það má kannski til sanns vegar færa.
17. júní er orðinn svo daufur að fólk nennir ekki einu sinni að detta í það þennan dag.
Hugsanlega er hér verkefni fyrir hina þjóðmenningarsinnuðu ríkisstjórn – að hefja þjóðhátíðardaginn aftur til vegs og virðingar?