Allt er hægt að draga inn á Alþingi af þingmönnum sem vilja vekja á sér athygli eða koma sér í mjúkinn hjá einhverjum hópum.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, hóf upp raust sína í þinginu og mótmælti hvarfi skemmtistaðarins sem ber hið óímunnberanlega nafn NASA.
Nú er það svo að þarna hefur ekki verið starfsemi lengi, hún stóð ekki undir sér og myndi varla hefjast aftur nema opinberir aðilar skerist í leikinn.
Var þingmaðurinn þá að leggja til að ríkið taki að sér rekstur þarna?
Hví er farið með svona mál inn á löggjafarþingið?
En það er kannski tímanna tákn að þegar ný ríkisstjórn er að taka við og breytir miklu frá fyrri stefnu, þá séu vinstri menn að mótmæla lokun skemmtistaðar?
Reyndar er það svo að NASA er hluti af gamla Kvennaskólanum sem síðar varð Sjálfstæðishúsið. Þetta er viðbygging sem hefur ekki þótt hafa mikið gildi í sjálfu sér. Hýsti um tíma skemmtistað sem nefndist Sigtún, það var fyrir mitt minni, en var svo lengi mötuneyti Landsímans.
Engum hefur dottið í hug að rífa gamla Kvennaskólann, enda er hann friðaður í bak og fyrir. Var reyndar gerður fallega upp fyrir rúmlega áratug, en áður hafði húsið allt verið múrað að utan svo það var fjarska ljótt að sjá.
En ég minntist hér um daginn á að mér þættu mótmælin gegn framkvæmdunum þarna fáránleg. Svörin sem ég fékk voru mörg á þá lund að ég væri genginn í lið með græðgisöflum og græðgisvæðingu.
Einhvern veginn er það samt svo að borgir eru ekki byggðar án peninga. Ég var einmitt í París um daginn og velti fyrir mér hvaða ríkidæmi hefði skapað þessa miklu borg? Með flúri og höggmyndum á húsunum, svölum úr smíðajárni, kvisti á kvist ofan. Vissulega höfum við ekki smekkvísi þeirra tíma, en eitthvað kostaði þetta.