Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alveg skilið andstöðuna við byggingarnar á svonefndum Landsímareit. Hallast helst að því að þetta sé einhvers konar nimbyismi – þ.e. að helst megi ekkert byggja á þessu svæði án þess að því verði mótmælt.
Eitthvað blandast þarna inn eftirsjá eftir skemmtistað sem nefndist NASA undir það síðasta. Sá staður var í viðbyggingu við gamla Kvennaskólahúsið, stóð ekki undir sér og er löngu búinn að loka. Í byggingatillögunum er reyndar gert ráð fyrir hljómleikasal á sama stað – þó ekki næturklúbb.
Svo hefur verið dreift á netinu mynd af skuggavarpi frá byggingunum yfir á Austurvöll. Staðreyndin er samt sú að skuggavarpið eykst lítið sem ekkert frá því sem nú er, enda standa við Austurvöllin stórhýsi vestan, norðan og austanmegin.
Við sunnanverðan völlinn stendur Alþingishúsið og Dómkirkjan. Alþingi mótmælti vegna þess að byggingar væru komnar of nálægt húsinu. En staðreyndin er sú að þar sem er bílaplan við nýrri hluta Landsímahússins (sem er tómt og afar ljótt) voru hús í eina tíð. Það er semsagt hefð fyrir byggingum þarna.
Ef teikningarnar eru skoðaðar virðast lausnirnar vera nokkuð góðar, eins og borgarfulltrúar Besta flokksins staðhæfa í nýlegri grein.
Húsin við Kirkjustræti eru lágreist og taka mið af byggðinni í kring – en fyrir aftan eru hærri byggingar sem renna saman við Landsímahúsin tvö. Þarna er gert ráð fyrir margvíslegri starfsemi á neðstu hæðunum, og mun ekki af veita – svæðið er steindautt eins og það er nú.
Það sem fólk vill varðveita eru semsagt bílastæði, tvö stór hús Landsímans og stór skúr aftan við gamla Kvennaskólann/Sigtún.
Enn ein furðuleg röksemd er að ekki megi byggja fleiri hótel í Miðbænum. Nú ferðast ég talsvert mikið og það er eitt sem ég forðast sérstaklega – það er að vera í hótelum í úthverfum. Ég hygg að svo sé um flesta ferðamenn. Staðreyndin er sú að það eru ekki sérlega mörg hótel í Miðbænum og þau eru flest smá.
Það er líka svo að ferðamennirnir sem gista á hótelunum standa undir flestu því sem núorðið er að finna í miðborg Reykjavíkur, veitingastöðunum og verslununum. Ef þeir kæmu ekki til væri fátt um fína drætti í miðborginni. Það er nefnilega líf í kringum hótel.
Hér eru nokkrar myndir sem sýna hvernig Landsímareiturinn kemur til með að líta út með nýbyggingunum. Myndirnar eru fengnar úr grein eftir Hilmar Þór Björnsson arkitekt sem skrifar hér á Eyjuna – hann lauk einmitt lofsorði á þetta skipulag.
Hilmar nefndi reyndar að það væri sorglegt að Ingólfstorg væri ekki endurskipulagt í tengslum við nýbyggingarnar. Það var upphaflega ætlunin, en frá því var horfið vegna mótmæla. Ingólfstorg þyrfti að taka rækilega í gegn, enda er það hrollvekjandi ljótt og kuldalegt.