Líklega eru fáir staðir í Reykjavík ótútlegri en Hlemmtorg.
Þar var fyrir nokkrum áratugum reist biðstöð fyrir strætisvagna – hús í hryllilegum stíl sem eins og hannaður til að framleiða félagsleg vandamál.
Borgarstjórinn okkar hékk á Hlemminum eftir að skýlið var reist og lifði það af. En það hafa ekki allir gert.
Nú eru uppi hugmyndir um að færa skiptistöð strætisvagna niður þar sem Umferðarmiðstöðin er. Ég veit ekki hvort það er skynsamlegt.
En þá mætti kannski laga Hlemminn aðeins – til dæmis með því að rífa áðurnefnda byggingu.
Á gamalli mynd má sjá hvernig Hlemmtorg leit út áður en húsið var reist. Þetta er ekki svo slæmt á þessum tíma. Stórhýsið við vestanverðan Hlemminn hefur á sínum tíma verið reist af miklum myndarskap – ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki sögu þess, en þarna var Náttúrugripasafnið til húsa um langt árabil við þröngan kost og þarna var bankaútibú sem lagðist af.
Myndina er að finna á síðunni 101Reykjavík, líklega er hún tekin á sjötta áratugnum.