Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, skrifar grein hér á Eyjuna og minnir á loforð sem flugu fyrir kosningar.
Gunnar Axel nefnir, auk skuldalækkana…
„….loforð Framsóknarflokksins um að hækka bætur almannatrygginga um tugi prósenta strax, um mögulega eingreiðslu til að greiða til baka þær skerðingar sem stjórnvöld neyddust til að grípa til í almannatryggingakerfinu í kjölfar hrunsins, skattalækkanir, stóraukin útgjöld til heilbrigðismála, launahækkanir.“
Öll þessi loforð byggja á því að meira verði hér til skiptanna næstu árin. Sjálfstæðismenn hafa reyndar haldið þvi fram að skattalækkanir myndu örva hagvöxt, en það verður varla upp á mörg prósent. Varaformaður Framsóknarflokksins talaði um það í fyrir kosningarnar að til að fjármagna loforð þyrfti að ná hagvexti upp í fimm prósent.
Það verður varla gert nema með miklum stóriðjuframkvæmdum – og þess vegna er vera Vinstri grænna í ríkisstjórn næsta kjörtímabil afar ólíkleg.
Svo er spurning hvort yfirleitt sé hægt að ná slíkum hagvexti, þesss má þá líka geta að álverð í heiminum er lágt. Í Evrópu er efnahagssamdráttur, í Bretlandi vart mælanlegur hagvöxtur, það er útlit fyrir að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði innan við 2 prósent, eða minni en gert var ráð fyrir. Í Kína verður líka minni hagvöxtur en gert var ráð fyrir.
En eins og staðan er virðist manni að fjárfestinga sé helst að vænta frá Kína. Við höfum nýverið undirritað fríverslunarsamning við risann í austri. Kannski ræðst hagvöxturinn hér af því hvort kínversk risafyrirtæki fá áhuga á Íslandi?
Hitt er svo annað mál hvernig efndir samræmast stöðu þjóðarbúsins. Samkvæmt þessari frétt RÚV verður mesta vandamál þjóðarinnar á næstu tveimur árum að eiga nægan gjaldeyri til að greiða af stórum erlendum lánum. Það virðist deginum ljósara að lengja þarf í sumum þeirra, með tilheyrandi vaxtakostnaði.