Við lestur stjórnarsáttmálans standa nokkrir hlutir upp úr. Kannski aðallega að menn eru ekki að flýta sér jafn mikið og talað var um fyrir kosningar. Og stjórnin ætlar greinilega ekki að láta hanka sig á of stórum loforðum í stjórnarsáttmála, margt er almennt orðað, en þó ekki allt.
Hafi menn búist við því að skuldir heimilanna yrðu leiðréttar fljótt eftir að stjórnin tæki við, þá var það óskhyggja. Þetta gæti tekið langan tíma.
Eins er það með skattalækkanir, þær verða væntanlega á kjörtímabilinu, en ekki strax. Nema þá hvað varðar auðlindagjaldið og auðlindaskatt.
Verðtryggingin er sett í nefnd sem skilar um næstu áramót.
Aðildarviðræðum við ESB er hætt – og sagt að ekki verði byrjað aftur fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekkert er talað um tímann á henni.
Það er sagt að Ísland eigi að vera leiðandi afl á norðurslóðum. Það er býsna háleitt markmið þegar tekið er tillit til þess að Rússar, Norðmenn, Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Grænlendingar eiga mun meira tilkall til norðurskautsins en við nokkurn tíma.
Krónan er sögð vera framtíðargjaldmiðill Íslands. Ríkisstjórnin tekur semsagt afstöðu með henni, og verður þá varla meira talað um aðra gjaldmiðla eins og Kanadadollar.
Rammaáætlun verður endurskoðuð, augljóslega til að fjölga virkjanakostum.
Það hálfpartinn liggur í orðalagi í stjórnarsáttmálanum að hætt verði við að byggja nýja Landspítalann – í staðinn er talað um endurbætur.
Það verður stofnað ríkisolíufélag að hætti Norðmanna, en íslensk olía er þó líklega langt inni í framtíðinni.
Stefnt er að breytingum á stjórnarskrá, en málið fært inn á Alþingi.
Beinlínis er talað um að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera á sínum stað í stjórnarsáttmálanum.
Það er talað um að auka veg landbúnaðarins með meiri matvælaframleiðslu.
Svo er dálitið skemmtilegur kafli um borgarumhverfi, augljóslega kominn frá Sigmundi, um verndun sögulegrar byggðar:
„Ríkisstjórnin telur mikilvægt að fegra hið manngerða umhverfi, borgir og bæi. Sett verða lög um sérstök verndarsvæði í byggð í samræmi við það sem tíðkast víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Markmiðið er að vernda sögulega byggð. Þannig verði framkvæmdir til þess fallnar að styrkja heildarmynd svæðis sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni þess og auka þannig á menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl.“