Richard Quest er fréttamaður á CNN. Hann er reyndar þekktari fyrir að nugga sér upp við fyrirfólk en eiginlega fréttamennsku.
Quest er góðvinur Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og í gær tók hann viðtal við hann á málþingi í London.
Þar segir Ólafur Ragnar merkilegan hlut, ef marka má frétt Mbl.is.
Hann segist hafa valið Sigmund Davíð Gunnlaugsson til að mynda ríkisstjórn vegna þess að hann hafi sett fram hugmyndir um skuldaniðurfellingu og hvernig eigi að taka á vogunarsjóðum.
En nú er það svo að engin hefð er fyrir því að forseti veiti stjórnarmyndunarumboð vegna málefna. Það hefur hingað til verið talið óhugsandi að forseti taki slíka afstöðu.
Ólafur Ragnar hefur brotið ýmsar hefðir, og hér er enn ein. Forsetinn færir stöðugt út valdmörkin. Hann velur Sigmund Davíð sökum þess að þeir eiga málefnalega samleið, hann og forsetinn.
Fram af þessu hefur mælikvarðinn á hver fær stjórnarmyndunarumboð einungis verið stærð flokka eða stærð kosningasigra – ekki málefni.
Eða að minnsta kosti lætur hann sterklega í það skína. Ólafur segir þetta við erlendan fjölmiðil, hann er eins líklegur til að draga í land ef íslenskir fjölmiðlar þýfga hann um þetta. Og undirliggjandi er að það sé hann sem velji forsætisráðherra. Þannig hefur það ekki verið hingað til, flokkarnir gera út um það í samningaviðræðum sín á milli.
Það er svo athyglisvert að Ólafur er enn að segja í útlöndum að Ísland sé til fyrimyndar um hvernig eigi að fara út úr efnahagskreppum. Ekki hefur virst að foringjar ríkisstjórnarinnar sem er að taka við séu á sama máli. En kannski breytist sá málflutningur fljótt og þeir Sigmundur og Bjarni fara að mæra íslenska efnahagsbatann. Kæmi ekki á óvart.