Niðri við höfn og út á Granda hefur verið að myndast mikið líf. Mest er það sjálfsprottið, þ.e. hið opinbera kemur ekki nærri. Að sumu leyti er þetta ferðamennskunni að þakka, ferðamenn koma þarna að skoða hafnarsvæðið og á leiðinni í hvalaskoðun eða slíkar ferðir.
En þarna hafa sprottið upp veitingahús og búðir og þarna er til dæmis búið að opna nýtt hótel við Slippinn sem fellur vel að hverfinu.
Flest er þarna frekar smágert eins og í gömlu Reykjavík.
En svo fara menn og hugsa stórt og þá verður útkoman eins og á myndinni hér fyrir neðan.
Þetta er sjö hæða bygging sem á að rísa við Mýrargötu. Það er farið að auglýsa íbúðir í henni til sölu.
Húsið er algjörlega út úr skala við hverfið, þarna er bara hugsað um hámarksnýtingu, að koma fyrir eins miklu byggingamagni á reitnum og unnt er.
Þetta er frekjulegur og klúr kassi – og mesta furða ef borgaryfirvöld leyfa þessu ferlíki að rísa.
Svo má líka hugsa um vindinn, hvernig hegðar vindurinn sér í kringum svona hús?